þriðjudagur, 4. ágúst 2015

Komin til Krítar

Ég kom hingað fyrir rúmri viku með flugi frá Rhodos til Heraklion. Tók þaðan rútu til Chania, og þaðan strætó til Agia Marina þar sem ég gisti hjá Trine, dönskum kollega frá því síðasta sumar. Við leigðum okkur bíl í tvo daga og keyrðum svolítið um Chania, heimsóttum suður ströndina, leigðum peddal boat við Kourna vatnið og skoðuðum skjaldbökur og rústir við Aptera.
Upprunalega var planið að fara til San Torrini, en verðið í bát þangað er orðið 60 EUR aðra leiðina, svo bílaleigubíll varð fyrir valinu. Trine fór svo aftur að vinna, og ég fór að vinna í sight seeing - tók strætó til Chania og vafraði þar um búðir og götur, fór á Stavros ströndina sem loka-atriðið í Zorba er tekið upp. Verð klárlega að horfa á þá mynd um leið og ég kem heim. Vaknaði svo upp fyrir allar aldir til að taka strætó til Chania og rútu þaðan til Heraklion, klukkan var eitthvað um fimm um morguninn, ég með myndavélina á öxlinni, guide bók um grikkland í hendinni og derhúfu á hausnum - og rútan full af party grikkjum að koma af djamminu í Agia Marina og Platanias - sem eru aðal túrista "úthverfin" fyrir utan Chania. Ég svaf svo slatta af leiðinni í rútunni til Heraklion sem tók um þrjá klukkutíma. Þegar þangað var komið, fór ég í strætó beint til Knossos, sem er fræg minoan höll og fornleifastaður. Strætóferðin þangað reyndist hin mesta skemmtun þar sem parið fyrir aftan mig reyndist vera frá Ameríku og af umræðunni að dæma í honeymoon-ferð. Umræðan byrjaði á því að mæðgurnar voru ósammála um hvernig brúðartertan ætti að vera, móðir brúðarinnar vildi fountain cake, eitthvað sem hún hafði haft í brúðkaupinu sínu, en brúðinni fannst afskamplega ljótt og sem betur fer sagði manneskjan sem bjó til kökuna að þetta væri frá 1980 og engin ung brúður í dag vildi svona köku. Hvernig kaka var svo fyrir valinu var ekki til umræðu. Næst á dagskrá voru fataskipti í veislunni. Brúðurin skipti víst um kjól undir lok veislunnar, en henni til mikils ama gerði brúðguminn slíkt hið sama - eitthvað sem hún hafi ekki verið spurð álits um, né gefið grænt ljós á. Hann fór líka í svona casual föt sem var alls ekki við hæfi miðað við kjólinn sem hún fór í. Hann fór víst í póló bol og khaki buxur (eða slacks eins og kanar kalla þær víst) - sem var algjörlega ekki við hæfi, mamma hans hefði átt að koma í veg fyrir þetta og hann hefði alls ekkert átt að skipta um föt. Ef hana hefði grunað að þetta myndi gerast þá hefði hún látið systur sína fylgjast með honum. Þar að auki setti hann upp sólgleraugu þegar hann var í smókíngnum-svoleiðis gerir maður ekki í brúðkaupinu sínu að hennar mati. Vesalings strákurinn sat þarna og reyndi að krafsa í bakkann, það hefði jú verið sól og hann hafi líka viljað skipta yfir í þægilegri föt, hún tók hins vegar engum sönsum og sagði að maður ætti ekki að vera í þægilegum fötum á brúðkaupsdaginn sinn! Hann endurtók þá bara að hann skildi þetta ekki. Skemmtileg brúðkaupsferð þetta heyrðist mér. 
Ég var komin til Knossos klukkan tíu og þrammaði um svæðið í rúma tvo klukkutíma og tók strætó aftur inní Heraklion. Stoppaði stutt á McDonalds og var svo rokin á fornleifasafnið þar á bæ sem er víst næst stærsta safnið á Grikklandi (á eftir því í Aþenu). Þar var hellingur af fólki, og hljómburðurinn hræðilegur, nóg til að fá hvern sem er til að verða syfjaðan, svo ég setti ipodinn í gang og hlustaði á tónlist meðan ég skoðaði steinkistur, leirkrúsir, skartgripi og fresco myndir. Þegar leið á daginn fækkaði fólkinu sem betur fer og þá varð minna þreytandi að vera þarna inni og maður gat notið þess betur. Ég röllti svo aðeins um verslunargötuna, en ég kunni afskaplega vel við Heraklion, töluvert fleiri búa í Heraklion heldur en Chania, en Chania virkaði fyrst soldið sjúskuð og subbulega á mig. Ekki var það heldur til að skemma fyrir Heraklion að hún státar McDonalds, stærri Pull and Bear, stærri Bershka og stærri Stradivarius. Til að toppa allt virtust allir halda að ég væri grísk í Heraklion, bæði grikkir og túristar, og missti ég töluna á því hversu oft ég var spurð til vegar á þessari stuttu göngu minni um borgina. Uppúr sjö tók ég svo rútuna aftur til Chania og var komin heim um ellfu leitið. 
Trine var svo aftur í fríi daginn eftir, svo við lágum við sundlaugina góða stund og fórum svo út að borða á rosalega góðri tavernu í Agia Marina. Þar þurftum við ekki einu sinni að borga reikninginn þar sem þeir þekktu Trine og veitingastaðurinn vinnur með dönsku ferðaskrifstofunni sem hún vinnur með. Steiktur saganaki ostur, grískt salat með feta osti, fyllt vínberjalauf og steiktur calamari. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli