laugardagur, 22. október 2016

The bikelife

Eins og ég var vön að fara í göngutúra á kvöldin í Alanya, þá gætu hjólatúrar á kvöldin í Köben verið málið.
Ef það er logn það er að segja, en á daginn eru allir að flýta sér eitthvað, og oft á tíðum mikil hjóla-traffík, fólk að taka framúr manni, og maður fær samviskubit ef maður heldur ekki sama tempói og þeir sem eru í kringum mann. Svo maður fylgir venjulega bara straumnum, og er lítið að horfa í kringum sig nema á rauðu ljósi, sem er ef til vill ekki skemmtilegasta leiðin til að upplifa borg. En í þau fáu skipti sem ég hef verið að fara eitthvað á kvöldin, og ef það er logn þá er æðislegt að vera hjólandi, þá getur maður bara lullað göturnar og glápt innum búðarglugga og horft í kringum sig í rólegheitunum, því það eru langtum færri á ferðinni. Það er kannski ekki besti tíminn samt að gera það á föstudags- eða laugardagskvöldi, því hérna hjólar fólk drukkið, og mjög drukkið. Þegar ég fór með Mariam í meat-district, sem er hipstera bar-hverfið, þá var fólk dettandi hægri og vinstri á hjólunum sínum á götuna, og það áður en það lagði af stað! 

þriðjudagur, 11. október 2016

Fleiri hjólastílar

Uppgvötaði um daginn enn annann hjólastílinn - það er vöggu-stíllinn, það er þegar hjólreiðarmaðurinn vaggar óvenju mikið til hliðanna um leið og viðkomandi hjólar! Þyrfti helst að fá einhvern til að laumu-hjóla á eftir mér til að greina minn hjólastíl, en vöggustíllinn er held ég með þeim hallærislegri að eigin mati.

Komst svo að því í gær, að eftir allt saman er ekki stúdenta-afsláttur á Chili mili - mér til mikilla vonbriðgða, komst líka að því í gær að maður þyrfti að eiga gúmmístígvél í rigningu, því þrátt fyrir að ég hélt að skórnir myndu ekki blotna svo mikið við það að hjóla í skólann þar sem þeir snerta ekki einu sinni götuna - nei gleymdu því - þeir rennblotnuðu - og endaði ég með þá inni á klósetti í skólanum undir handþurrkunni.

Komst líka að því að Harry Potter gleraugu gætu reynst hið mesta þarfa þing hér í Köben í rigningunni, því þegar þú ert búinn að grúfa hausinn ofan í bringu, þá sérðu ekki neitt fyrir ofan umgjörðina - en með HP gleraugum er sjónsviðið líklegra hærra og hægt að sjá lengra fram fyrir sig þegar maður hjólar - en ég komst rétt hjá því að hjóla á konu sem labbaði á móti umferðinni með hjólið sitt - Á HJÓLAGÖTUNNI. Í hitt skiptið nauðhemlaði ég er hjólreiðamaðurinn fyrir framan mig nauðhemlaði þegar umferðarljósið varð gult, og hoppaði ég hreinlega af hjólinu, og afturdekkið fór á flug.

Sem sagt mjög óánægjuleg reynsla af því að hjóla í rigningu! 

sunnudagur, 9. október 2016

Hjólandi og multitasking

Það er líka hægt að borða samloku þegar maður er að hjóla, nú eða reykja og hjóla! Sá nú meira af fólki reykja hjólandi í september heldur en núna, þar sem það er töluvert meiri vindur núna heldur en í september, þegar það var nánast sumar-veður.
Um daginn sá ég svo konu hjóla og borða samloku, það var alveg kostulegt - hún hjólaði að sjálfsögðu hægt, og pínu skrykkjótt, og tóku allir frammúr henni. Ég er ekki komin svona langt í hjólamenningunni að geta hjólað með annari og borðað með hinni, en í dag tók ég samt mína fyrstu mynd á símann minn meðan ég var að hjóla - en það var lítil umferð, og þetta var afraksturinn:

Mynd tekin á ferð

En myndefnið var skemmtilegt, eldri karlmaður í rykfrakka á hjóli.

Er búin að komast að því að það ískrar óþægilega mikið í hjólinu ef ég nota handbremsuna í rigningu, og hjól fjúka um koll hérna í borginni þegar vindurinn er sterkur.

Á to do listanum mínum er að heimsækja nokkur söfn og fara á world press photo sýninguna sem er til sýnis hérna í Köben. Poppa við í Dagmar bíó-húsinu og fá prógramm fyrir CPHPIX, sem er reyndar bara á dönsku - Danirnir ekki alveg með þetta eins og þeir sem stjórna Riff heima. 
Komst líka að því að hollustu veitingastaðurinn sem ég uppgvötaði fyrir nokkrum vikum: Chilimili er með 20% námsmanna afslátt.. eins gott að ég er bara búin að borða þar tvisvar sinnum.
Einnig ætlaði ég að setja mér markmið að borða einu sinni í viku á nýjum kebab eða shawarma stað... í dag er komin vika síðan ég borðaði síðast á slíkum stað, ekki viss um að ég nái að standa við það markmið.. en kannski aðra hverja viku?
Annars verð ég nú örugglega mest á hvolfi að læra heima næstu vikurnar, síðasta vika fyrir vetrarfrí byrjar á morgun, og í vetrarfríinu byrja próf í formi heimaverkefna. Og núna eru einskonar æfinga-próf.