föstudagur, 14. ágúst 2015

Íslendinga hittingur

Ef manni langar einhverntíma til að hitta aðra Íslendinga hér á Krít þarf maður ekki að gera annað en að skella sér í H&M en þar er alltaf hægt að finna helling af Íslendingum. Var dagurinn í dag engin undantekning enda hellidemba hér í Chania. Býst við að þessa reglu sé einnig hægt að yfirfæra á hvaða borg sem er í heiminum svo framarlega að Icelandair eða Wow fljúgi þangað - sem og borgir sem íslenskar ferðaskrifstofur bjóða uppá ferðir til. Það er nú bara gaman að þessu enda gef ég mig ekki að hinum samlöndum mínum í mínum verslunarferðum - og er alltaf hæstánægð að vera ávörpuð á grísku af afgreiðslufólkinu - sem er þá einskonar staðfesting á því fyrir sjálfa mig að ég er ekki sjúklega túristalega útlítandi. Þó að grísku stelpurnar séu alltaf mun betur til hafðar en undirrituð. Þær grísku eru alltaf með fullkomið hár og ef eitthvað er aðeins of mikið málaðar (óháð tíma dags). Á daginn eru þær í milli fínum fötum og flottum sandölum, alltaf með sítt hálsmen á ströndinni við efnislitla bikiníið sitt (á sérstaklega við um bikini-buxurnar) og á kvöldin eru þær í flottum kjólum og flottum skóm. Um strákana gilda þó aðrar reglur - en utan strandarinnar eru þeir alltaf í eins farnaði; stuttermabol eða polo við hnésíðar gallabuxur og skóbúnaðurinn er alltaf í gargandi ósamræmi við skóbúnað stelpnanna, en strákarnir eru undantekningarlaust í strigaskóm og oftast týpu sem er í 2-3 litum. Og þetta þykir fullkomlega eðlilegt, og sér maður pörin á börunum hérna, hún á leiðinni á Loftið og hann á leiðinni á Bjarna Fel sportsbar - en þó á sama barnum-saman.Magnað fyrirbæri!

Bestu kveðjur - sjáumst eftir rúmar tvær vikur
Kv.
Elín

Engin ummæli:

Skrifa ummæli