þriðjudagur, 23. september 2014

Heimilislegt

Núna er komin vika síðan ég kom heim, nema mér líður eins og það séu tvær vikur - tíminn leið eitthvað svo hratt úti, en svo líður hann rosalega hægt hérna heima.... og hugurinn leitar mikið út! Enda vandaði Ísland mér kveðjurnar ekkert alltof vel, var með tæplega 40 stiga hita á sunnudaginn, sem betur fer er hann búinn að lækka í 38 gráður, þessu fylgir svo hor og hósti.

Verð svo að setja inn ferðalýsingar við tækifæri, en síðustu vikuna á Tyrklandi var ég í fríi og keyrði til Cappadocia, stoppaði í Catal Huyuk á leiðinni - sú ferð var algjör snilld, enda sá ég allskonar tegundir af landslagi. Stoppaði svo heima í Alanya í nokkra daga og var svo rokin aftur af stað með Nikulás og Anniku til Kas og þaðan til Kastellorizo - grískrar eyju sem liggur um 2 km úti fyrir strönd Tyrklands - sú ferð var líka algjör snilld, og maturinn sem við fengum á Grikklandi - omg bestu ólífur sem ég hef á ævinni smakkað!!

Já er bara ekki frá því að maður sakni Tyrklands svolítið - það var allt orðið svo heimilsislegt þar - maður var farinn að þekkja starfsfólkið á hótelunum og gat spottað það úti á götu - tala nú ekki um ef kokkarnir voru í uniforminu gangandi úti á götu... ekkert smá fyndið að geta vitað hvar fólk er að vinna því maður þekkir uniformið á hótelinu sem það er að vinna!

sunnudagur, 14. september 2014

Langar í scooter

Miðað við það að ég fór í fyrsta skipti á scooter, eða vespu í júlí, og hef einungis sest á slíkan grip tvisvar sinnum eftir það - þá er ég alveg heilluð af þessum fararmáta. Það skal þó tekið  fram að ég hef ekki keyrt sjálf á slíkum grip, heldur ávallt verið farþegi.

Það sem hefur verið á döfinni uppá síðkastið er ýmislegt skal ég segja ykkur - endaði óvart í semí-djammi á frídeginum mínum. Hafði samt kíkt út kvöldið áður, stakk svo uppá því við Nikulás (aka. Ásgeir Kolbeins) að fara á tyrkneskan stað sem ég var búin að heyra svo marga í vinnunni tala um - nema ég vissi ekkert hvar hann væri.. en Nikulás vissi það - svo við fórum þangað.. og þar fengum við svo matseðil einungis á Tyrknesku... enduðum bara á því að láta þjóninn velja fyrir okkur - og maturinn var geðveikt góður - náði svo að fara aftur þangað fyrir örfáum dögum.
Á veitingastaðnum rakst ég svo á Kati, eina af finnsku fararstjórunum í Incekum - og enduðum við á því að láta vini hennar skutla okkur í búðir á Ataturk street (á scooter of course) og fórum svo niður á höfn og enduðum á því að tjatta langt fram á nótt.... núna er ég einhvernveginn alveg komin í gír til að vera hérna lengur þegar maður er búin að kynnast fleira fólki hérna...

Ef ég byggi hérna i einhvern lengri tíma - þá myndi ég klárlega kaupa mér scooter ;)

Starfsfólkið á hótelunum er svo farið að þekkja mann, ég þarf til dæmis ekki að biðja barstrákinn á einu hótelinu um vatn lengur, er bara búin að biðja um vatn þar í allt sumar - svo hann er bara farinn að rétta mér vatn yfir barborðið óumbeðinn - finnst það soldið æðislegt. Á öðru smærra hóteli er ég svo spurð hvort ég vilji; ,,the usual" sem er enn og aftur vatn - það er sagt að maður eigi að drekka einn líter af vatni fyrir hverjar 10 gráður, núna er hitinn í kringum 35 gráður á celsius, svo það gerir 3,5 lítra af vatni takk fyrir..

Íslenska seasonið er búið. Tíminn líður alltof hratt, maður er soldið að reyna að grípa seinustu dagana á lofti hér í landi, er búin að vera mjög dugleg að fara út á kvöldin og labba um borgina, og njóta umhverfisins - skemmtilegast finnst mér þó að ramba niður á skemmtilega verslunarmenn sem eru til í spjall um daginn og veginn.. ætli þeir uppfylli ekki þörf mína fyrir mannleg samskipti að stórum hltua hér í landi.. samstarfsfólk mitt á margt hvert sitt eigið líf og sína eigin vini hérna á áfangastað, og eru því kannski ekki mikið að umgangast vinnufélagana utan vinnu. Sambýlingurinn var svo orðinn ansi þreyttur á samstarfsfólkinu á tímabili - enda eru þau saman allan daginn meira og minna, eru í hótel-þjónustu saman tvö og tvö frá 9-12 og svo aftur frá 16-19, og þess inná milli fara þau oft saman í hádegismat eða vinna á skrifstofunni saman.
Dagarnir hjá mér eru þó talsvert ólíkir, ég er venjulega í hótelþjónstu frá 9-13 fæ svo 1-3 klukkustunda pásu í hádegismat, og held svo áfram að vinna til 19 eða 19.45 jafnvel.. og er mestmegnis ein að þvælast á milli hótela þó það komi auðvitað fyrir að ég hitti samstarfsfólkið á hótelunum. Ég eyði þó ekki heilu dögunum með þeim, frekar að ég rekist á þau í 15-45 mínútur... og svo er maður rokinn aftur af stað - en ég verð þó allavega ekki þreytt á neinum.. og það er gaman að keyra hérna á milli staða.. þó að ég hafi pikkað upp slæmt blót frá Stínu; oh my fucking god - er það sem ég pikkaði upp um leið frá henni eftir að hafa rúntað með henni í byrjun tímabilsins :)

Á eftir að sakna mikið af samstarfsfólkinu - líka Ásgeirs Kolbeins - svona loksins þegar maður er búinn að kynnst þeim ;)
Á eftir að sakna furðulegrar hegðunar tyrkjanna hér í borg, eins og þeir eyða heilmiklu vatni og tíma í það að smúla stéttarnar fyrir utan búðirnar sínar - og ekki er þetta vegna ryks, því þeir gera þetta nánast daglega - og þeir tyrkir sem ég hef spurt útí þetta segja að þeir sem geri þetta trúi því að þeir séu að kæla loftið og stéttina í kringum verslunina sína - auk þess sem þeir eru að skola burtu ryki og drullu. Ekki er öll vitleysan eins.
Á eftir að sakna þess að hér í Alanya eru eldgömul og hrörleg hús sem fólk býr ennþá í (annað heldur en í miðbæ Reykjavíkur þar sem allt stendur autt)
Á eftir að sakna þess að ramba aðrar götur heldur en venjulega og finna hænsnakofa inni í miðri borg á enskis-manns landi.
Á jafnvel eftir að sakna illa vaxins karlpeningsins hérna - sem klæðir sig svo sannarlega ekki eftir vexti, en tyrkirnir eru allir frekar lágvaxnir hérna - og allir eru þeir í hnébuxum sem ná niður fyrir hné - það er svo sannarlega ekki að gera sig fyrir útlitið á þeim - þeir virðast því jafnvel enn styttri í loftinu fyrir vikið. Ég er þó búin að komast að því af hverju þeir kjósa að vera í buxum niður fyrir hné - því ef þeir ætla í moskuna að biðja þá verða þeir að vera í buxum sem ná niður fyrir hné! Held virkilega að þeir ættu að taka þetta til ensdurskoðunar.

Þjóðin virðist þó vera að hækka þar sem ungu porterarnir á hótelunum eru allir frekar hávaxnir - og ég myndi halda að þeir væru í kringum 18-19 ára gamlir flestir þeirra.

laugardagur, 6. september 2014

Rusl

Tyrkir hljóta að hafa mikla andstyggð á ruslatunnum, því hér í landi eru þær langt frá því að vera auðfundnar! Þar af leiðandi er mjög erfitt að losa sig við rusl á fjölförnum stöðum - eins og í miðbæ Istanbul eða á rútustöðvum. Var ég ekki örugglega búin að segja ykkur hvað kollegi minn sá á hverjum degi þegar hún fór útá flugvöll?
Almenninginr er svona líka duglegur að henda rusli útum gluggana á bílunum sínum að það hálfa væri nóg - en ég er þó búin að komast að þeirri niðurstöðu að þetta gera landsmenn í atvinnu-skapandi tilgangi. Það eru jú menn í fullri vinnu við það að tína upp rusl hér í landi - bæði í borgum sem og á vegum úti. Þeir myndu klárlega missa vinnuna sína ef allir landsmenn tæku ekki upp hanskann fyrir þá og héldu áfram að henda rusli úti um allt. 
Það er bara spurning hvort ég fari ekki líka að vera atvinnuskapandi?

Það fer svo bara að styttast í heimkomu hjá mér...