fimmtudagur, 29. maí 2014

Gestirnir komnir

Nýjustu fréttir,

jæja ennþá fréttir frá tummy-land, ég fór jú í hamam um daginn, og það hjálpaði eitthvað, en ekki eins mikið og það átti að gera. Svo í gærdag gafst ég endanlega upp, fór í apótek í hvað tíunda skipti? Í þetta sinn í leit að samarin - skv. leiðbeiningum frá ma og sys... ekkert svoleiðis til - en töflur sem eiga að hjálpa við að losa gas úr maga, svo ég skellti mér á þær - þegar ég kom svo heim fékk ég einhverja banþanka eftir að hafa googlað lyfið, og mér fannst ekki sem lýsingarnar á verkunum væru það sem ég væri að leita að. Svo ég hringdi á læknastofu hér í bæ, og fékk upplýsingar um lyfið og hvort mér væri óhætt að taka það, jú ekkert mál, ég mátti taka þetta lyf og þar að auki í apótekinu keypti ég barna-nudd krem, sem á hvorki meira né minna en að minnka loft í maga... og ég er bara ekki frá því eftir því að hafa smurt því á mig í gærkvöldi og nuddað vel magann - að ég hafi bara vaknað einni stærð minni.... sömuleiðis er ég aftur farin að getað borðað meiri mat á daginn, ekki fulla skammta ennþá - en þetta er allt að mjakast í rétta átt guði sé lof. Get svarið það - ég varla borðaði neitt fyrir nokkrum dögum síðan.

Annað í fréttum er það helst að fyrsti íslenski hópurinn kom í dag - og ég fór að taka á móti þeim úti á flugvelli uppúr fimm í morgun. Til að kóróna allt svaf stelpu-greyið sem ætlaði að sækja mig yfir sig - en ég var blessunarlega komin með bílinn minn svo ég brunaði á rútu-pickupstaðinn, nema þá hafði eitthvað klúðrast að láta vita um að það ætti að sækja okkur. Svo við enduðum á því að keyra útá völl - já ig ég fæ minn eigin bíl til umráða til að hafa í vinnunni, frekar þægilegt. Ég er bara orðin nokkuð góð í að keyra skal ég segja ykkur, en á eftir að keyra inní miðbæ ennþá...  kannski á morgun. En rosalega fyndið að þegar ég er að keyra milli Alanya og Incekum - þá eru grískar útvarpsstöðvar í loftinu, enda ekki langt til kýpur - svo ég er alltaf komin hálfa leiðina til Grikklands þegar ég keyri á milli staða hérna.

Dagurinn gekk bara vonum framar, alllir íslensku gestirnir voru í frábæru skapi, og mér gekk bara mjög vel að halda svokallaða kynningarfundi í dag - fékk fullt af krefjandi spurningum frá gestunum, og get sko sagt ykkur að ég var farin að svitna á tímapunkti (maginn spilaði einhverja rullu þarna). Var þó alltaf með einhvern af skandinövunum með mér til að halda í höndina á - sem er algjört möst þar sem ég kann ekki að gera alla hluti ennþá - og veit ekki allt um allt - ennþá.

En jæja núna er klukkan að ganga tíu - og eftir svona langan dag, þar sem maginn á mér er ennþá í einhverju rugli veitir mér ekki af öllum þeim svefni sem ég kemst yfir - já og svo þarf ég að nudda á mér mallakútinn.

kv.
Elín

þriðjudagur, 27. maí 2014

Spítaladvöl

Sælir kæru vinir og afsakið fjarvistina,

þær gætu þó samt orðið margar í náinni framtíð þar sem það verður alveg crazy að gera hjá mér frá og með fimmtudeginum - þegar íslendingarnir loksins mæta á svæðið.

En ég er s.s. búin að vera á spítala í 2 nætur - var heima síðustu nótt - fékk einhverja svakalega sýkingu í meltingarfarveginn, svo ristillinn var bólginn og einhver level sem eiga að vera max 5, voru komin í 280 takk fyrir - þau lækkuðu svo niður í 174 á degi tvö og þegar þeir útskrifuðu mig af spítalanum var ég komin í 116 og á að taka sýklalyf og minerals sem mig vantar 2x á dag í viku. En magnið af sýklalyfjum og vökva sem þeir dældu í mig á spítalananum, það var með ólíkindum - var skíthrædd að fara heim og taka bara 2 töflur á dag í staðinn fyrir að fá marga poka beint í æð af gulu hressingarmeðali. Og hvað ég var þakklát þessum læknum og hjúkrunarkonum sem gerðu þó miklu meira veður útaf 6 cm blöðru á eggjastokknum á mér heldur en sýkingunni - og hvort ég vildi bara ekki endilega skella mér í aðgerð.. hélt nú ekki. Svo kom kvensjúkdómalæknirinn að tala við mig, og hvort ég vildi ekki fara í aðgerð, og hvort ég hafi farið í svona aðgerð áður jú jú mikið rétt... og hvaða lyf ég væri að taka við þessu - því það væri klárlega ekki að virka - feilaði alveg að spyrja hann hvaða meðölum hann mælti með :)

spítala selfie

Það var ekki að spyrja að því - þau á skrifstofunni vildu fá mig í vinnuna allan daginn - ég þvertók fyrir það - en var þó lengur en ég ætlaði (hluti af tímanum var hádegismatur sem ég borðaði 1/3 af - og það sem var forréttur) en ég er útblásin af lofti og lít út fyrir að vera komin á þriðja mánuð. Eftir að hafa farið yfir hina ýmsu vinnuferla í vinnunni ásamt því að fá nokkrar gerðir af uni-formum, bakpoka og litla hliðartösku, þá rauk ég beinustu leið í strákana í skoðunarferðadeildinni og sagði að ég yrði að komast í hamam í dag - svo þar er för minni núna heitið - eftir stutt stopp í apótekinu í leit að svefn-maska. En í hamam er maður skrúbbaður frá toppi til táar, og maður fær nudd - maganum á mér veitir ekki af því get ég sagt ykkur.

Er loksins orðin frekar spennt yfir hlutunum, en þegar ég vaknaði í morgun langaði mig bara beinustu leið heim til Íslands - eftir spítaladvöl - og með útblásinn maga er maður ekki sá allra hressasti.

Alex, ein af skandinavísku guidunum mun svo koma til með að vera mér til halds og trausts fyrstu vikuna - og ef ég á bara ekki að fá eigin bíl til að nota í vinnunni... ætla nú ekki að taka því sem granted... og ég á eftir að keyra hérna, en flautan og ég erum góðar vinkonur svo ég vona bara að ég verði fljót að aðlagast bílnum.

Farin í hamam, eða kannski ég dýfi litlu tánni í sundlaugina hérna fyrir utan fyrst - kannski

kv.
Elín

þriðjudagur, 20. maí 2014

Dagur 5 og 6

Sælir kæru vinir,

síðustu 2 daga er ég búin að fara í skoðunar- og verlsunarferð til Manavgat... þar var stoppað á bazar, í textíl-búð og farið í siglingu og stoppað á strönd... eftir það ruslaðist ég í myndatöku fyrir visa-processið sem ég þarf að byrja á að græja í fyrramálið. Það var ekkert smá fyndið, settist niður - frekar sveitt og sjúskuð eftir daginn í sólinni. Ljósmyndarinn smellir nokkrum myndum af, svo býður hann mér sæti við hliðina á sér - á meðan hann photo-sjoppar myndina. Haha... ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið - hann svona líka photo-shoppaði mig, gerði hálsinn á mér mjórri, airbrushaði húðina á andlitinu, roðann, litlu hárin sem stóðu útí loftið útum allt og gerði augabrýrnar dekkri... svo tók hann sólarbletti líka út - pælið í því. Fimmtán mínútum seinna mátti ég svo koma og ná í myndirnar.. og þá fékk ég eina stækkaða mynd í kaupbæti:

Photo-sjoppaða myndin

í dag átti ég svo að fara í sjóræningja-siglingu, það er að segja að læra að vera sjóræningi, en það plan breyttist last minute.. þar sem ég fór á crisis-námskeið með öllu teyminu af áfangastöðunum hérna. Þar var farið í gegnum þá vinnuferla ef upp kæmi jarðskjálfti, flóð eða eldgos (haha Eyjafjallajökul bar meira að segja á góma). Eftir námskeiðið sem var haldið í nágrannabæ Alanya, fórum við öll heim á skrifstofuna og ég og Anna skutluðum út bréfum sem áttu að fara á hótelin - upplýsingar um brottfarartíma á flugum fyrir gesti.
Eftir það var mér gefið það verkefni að röllta um miðbæinn - og kynnast bænum betur, finna pósthúsið, ákveðin kennileiti og finna ákveðnar búðir í bænum, og fara í búðir á litlu göngu-götunum til að forvitnast hvað er í boði og hvað það kostar.. svo ég fór í leiðangur að athuga hvað hlutirnir kosta - og eftir að hafa tekið í höndina á nokkrum búða-hözzlurum, tekið þátt í leiknum; hvaðan kemur þú? Og eftir að hafa logið nokkrum sinnum að ég væri frá Grikklandi... fengið komment um hvað enskan mín væri góð, fengið söluræðu á sænsku og hvað ég væri með falleg augu - nú eða flottan rass í þessum gallabuxum (sem ég mátaði í búðinni), hvort ég vildi ekki adda einhverjum á facebook eða fá mér drykk með hinum. Þá kosta gallauxur 100 tyrkneskar lírur (um 5 þúsund íslenskar) og einn var tilbúinn að selja mér pasmínu-slæðu á 15 lírur - sem er FÁRÁNLEGA ódýrt eða um 800 krónur íslenskar - skil ekkert í mér af hverju ég keypti ekki nokkrar... jú alveg rétt - hann vildi fá koss á kinnina!!
Ekkert var þó keypt af neinum, nema það sem ég fór sérstaklega til að græja, og það var ól á úrið mitt - það sem ég keypti hérna í Alanya fyrir örugglega 12 árum síðan ef ekki meira... og það er örugglega einn af fáum sölumönnum á svæðinu sem jaðraði ekki við að vera uppáþrengjandi... af honum keypti ég svo leður-ól á 25 lírur eða 1.300 ISK - það er geðveikur díll, og þar að auki gat hann sett gömlu festinguna, á nýju ólina - svo það stendur actually DKNY á sylgjunni á ólinni - þeirri sem tilheyrði fyrstu ólinni - eina sem ég feilaði á var að láta þá setja extra gat á ólina. Það er plenty of time fyrir það - haha þessir litlu úlnliðir á mér. Svo spurði úra-gaurinn mig hvað ég ætlaði að gera núna, ég sagðist vera að hugsa um að fara á einhvern stað til að borða - þá ráðlagði hann mér að fara á Ravza, þangað færu tyrkir líka - svo ég fór þangað og þá reyndist það vera uppáhalds veitingastaðurinn minn hérna frá því í gamla daga, nema ég vissi aldrei hvað hann hét fyrr en núna - áður var hann bara guli veitingastaðurinn :) Og viti menn það eru ennþá gulir stólar á veitingastaðnum... þá er staðurinn búinn að flytja og ég spurði þjónana hvort þetta væri staðurinn sem hefði verið hinum megin við götuna - og jú jú... þeir voru frekar ánægðir með mig þar, viðskiptavininn sem kom aftur eftir 10+ ár. Annars er bærinn búinn að breytast heilmikið frá því ég kom hérna síðast, það er meira af búðum og stærri keðjum, og meira af svona skran-búðum og færri skargripaverslanir en áður... kreppan hefur víst komið hingað eins og annars staðar.

Nýja leður-ólin og roðinn sést smá!!


Get líka státað mig af því að ég fékk fyrstu tvö moskító-bitin;






Og annað á mjöðminni, skildi ekkert hvernig ég gæti hafa fengið það - en svo fattaði ég það, þegar ég er með veskið ská yfir öxlina - þá hefur bolurinn tosast upp og voila - bit.. hitt er ekki eins stórt og er á handleggnum á mér.. jæja best að smyrja sig með flugnabits-kremunum og after-sun. Á morgun: visa-process, ganga meira um miðbæinn og heimsækja Red Tower, eitt af kennileitunum hér í borg: sá það aðeins að utan í dag og fann uppáhaldsstaðina mína hér í bæ, fyrir neðan rauða turninn og á hæð við höfnina - sjá myndir:




Útsýni yfir höfnina



Gekk meðfram þessum múr - einn af uppáhalds-stöðunum mínum so far



Rauði turninn



Hvað er það svo með turna kennda við liti í borgum sem ég bý í (allavega erlendis) - í Þessalóníku var það white tower, og hérna er það red tower...

Ekki er ég að fara til Kína næst?

Annars er bara allt gott að frétta, létti heilmikið við að fara á þetta námskeið í dag, þetta er ekki eins yfirþyrmandi og áður, er líka búin að fá eina möppu með upplýsingum um hitt og þetta - vann svo í því í dag að henda símanúmerum inní símann minn og fyrst að 19 ára pjakkar geta gert þetta - þá hlýt ég að geta gert þetta... var líka eitthvað svo óhemju þreytt fyrstu dagana hérna - svo virðist sem ég sé loksins að komast yfir það..  og ég er komin með auka-náttborð - heimtaði að fá það frá roomie þar sem hann var með tvö náttborð og beuaty desk... svona er að fá að velja herbergi fyrst - þá velur maður stærra herbergið.. smá house-training framundan með hann....


sunnudagur, 18. maí 2014

Dagur 3 og 4

Sælir kæru vinir,

það er alltaf eitthvað nýtt og merkilegt að gerast hérna í Alanya..
Í gær laugardag, var mér hennt upp í rútu til Dim hellisins og Dim fljótsins - þar sem ég var í kynnisferð ásamt annari finnskri stúlku - og áttum við að læra af henni Önnu (sænsk-tyrknesk) sem var að fara með hóp sænskra farþega í skoðunarferð - við finnska stelpan tókum glósur hægri og vinstri inn á milli þess sem við stoppuðum í ávaxtagarði og fengum okkur handtýnda ávexti og appelsínusafa og banana - en ótrúlegt að það sé bara hægt að keyra 30 mínútur út fyrir borgina og vera komin í aldingarð appelsína og banana... mjög gaman að fá að skoða þetta - og tala nú ekki um ef ég fæ að fara þarna með íslendinga í sumar.

Þegar við komum aftur í bæinn úr skoðunarferðinni fórum við fjórar saman í heimsókn á ný-uppgert hótel í jaðri bæjarins og fengum að skoða herbergi og upplýsingar um hvaða þjónusta væri í boði á hótelinu þar sem gestir frá okkur koma til með að gista þarna í næstu viku.

Að kvöldi laugardags var mér nóg boðið - ég hreinlega yrði að fá að hitta yfirmennina mína hérna, ekki vildi betur til að ég var tekin á teppið fyrir utan skrifstofuna af einhverjum Tyrkjanum fyrir að vera ekki byrjuð á bláu-bókar umsóknarferlinu - en það er einskonar staðfesting á work permit. Ég svaraði því til að ég væri ekki ennþá búin að hitta superviserana en aðra þeirra hitti ég loksins þetta sama kvöld, vá þvílíkur léttir, var búin að vera eitthvað svo týnd í þessu öllu saman - en hún svaraði öllum spurningunum sem brunnu á mér þá stundina og ég fékk sim-kortið sem ég kem til að nota þegar ég fæ símann - þá fór ég og ein önnur sænsk stúlka í mission á eitt hótelið með skilaboð til gesta og þá var verkum okkar lokið það kvöldið um kl. 20.00. En guð minn góður þegar ég fer að keyra bíl hérna - JEREMÍAS - Tyrkir keyra út um allt á veginum, á miðjunni, leggja í vegkantinum þar sem á ekki að leggja, tveir til þrír bílar eru svo hlið við hlið á gatnamótum, allir að beygja í sömu áttina þar sem er bara gert ráð fyrir einni akgrein. Og svo bætast við skellinöðrur við þetta allt saman.

Þar sem það var komið á þriðja dag og ég ekki ennþá búin að hafa tækifæri til að röllta niðrí bæ - þá ákvað ég að núna yrði því komið í verk auk þess sem ég varð að leita að ljósmyndastofu til að láta taka myndir af mér fyrir bláu-bókar umsóknina. Ljósmyndastofan fannst nú ekki - en rakst hins vegar á minn fyrrverandi - standandi úti á götu að reyna að veiða túrista inn til að verlsa af sér. Seasonið hjá honum fer víst eitthvað hægt af stað, sem er víst það sama og er að gerast hjá okkar gestum - þeir eru sem sagt ekki duglegir við að kaupa sér töskur, skó né að fara í skoðunarferðir. Náði nú annars ekki mikið að tala við hann þar sem hann er að vinna til hálf eitt öll kvöld/nætur - og byrjar kl. 9 á morgnana, og fær enga frídaga. Hvað er ég að væla með mína 5 frídaga í mánuði - svo var ég að tala við kollega mína - þá safnar maður líka 2 frídögum á mánuði - eins og heima, svo ég get búist við því að safna þannig 8 frídögum ofan á hina frídagana mína, svo er spurning hvenær ég get tekið þá og hversu marga í röð. Spurning hvort maður skelli sér til Istanbul í einhverju fríinu ef Berat vinur minn getur tekið á móti mér :) Eða kannski maður tjilli bara við sundlaugina sem er fyrir utan íbúðina okkar:

Sundlaugin séð útum herbergis-gluggann minn


Í dag fór ég svo í köfunarferð - nema hvað ég kafaði samt ekki - eftir eyrna-ævintýrið á Grikklandi þá læt ég það vera og snorklaði í staðinn, og flatmagaði í sólbaði á dekkinu á bátnum... ekki ólíkt þessu hjá okkur Sigga - en þarna löbbuðu kafararnir útaf einskonar planka en þurftu ekki að láta sig detta aftur á bak! Er með pínu sjóriðu eftir volk dagsisns, þó það hafi nú í raun bara rétt verið silgt út fyrir höfnina og akkerum varpað þar. Er pínu rauð þrátt fyrir að hafa makað mig með sólvarvörn nr. 30 - svo ég fann kaupmanninn á horninu og fékk aloe-vera after sun hjá honum - sjáum til hvort hann verði með einhverjar kröfur á mig að kunna tyrknesku eftir nokkra mánuði eins og gríski kaupmaðurinn á horninu á Kassandrou - talandi um - er ennþá ekki búin að finna út hvert heimilisfangið mitt er hérna heima. Allavega... svo hitti ég strákinn sem ég deili íbúðinni með: Nikulás - rauðbirkinn ungur drengur frá Danmörku - sem er búinn að lita hárið á sér svart eins og Ásgeir Kolbeins, er bara ekki frá því að þeir gætu verið eitthvað skyldir, það er allavega eitthvað líkt með þeim. En Nikulás var ekki lengi að lýsa því yfir hvað hann væri ánægður með að fá mig sem room-mate, þar sem ég gæti farið að elda fyrir hann - ég hló hátt og snjallt og sagðist vera algjörlega ónothæf í eldhúsinu... þetta var ekki lengi að dreifast til allra sem vinna hérna með okkur - og núna er hann að elda kjúkling fyrir okkur sem ég keypti á markaðnum - komst bara að því áðan að yfirbyggða markaðstorgið með grænmeti, fisk og kjöt er beint á móti húsinu okkar.. markaðurinn sem mamma var svo yfir sig hrifin af fyrir einhverjum árum síðan - ekki undra að ég skyldi ekki þekkja hann - því þá notuðumst við við annan inngang - enda komum við úr annarri átt í það skiptið. Magnað hvað ég er búin að renna fram hjá mörgum kunnuglegum stöðum þessa síðustu daga, sumir kunnuglegri en aðrir... enda hef ég gist um þessa borg þvera og endilaga á mismunadi hótelum og íbúðum. Til dæmis búin að brýna það ítrekað fyrir Nikulási að passa sig að loka svala-hurðinni sérstaklega vel þar sem ég hef verið í íbúð sem var rænd í gegnum svaladyr - og það var á þriðju hæð ef ég man rétt, núna er ég á 2 hæð - en það voru reyndar stór tré fyrir utan þá íbúð sem var rænd - en það er sama. Ætla sko ekki að standa í því takk fyrir...

Jæja ætla að setjast með roomie og borða saman - ætli ég verði ekki að taka mig saman í andlitinu og actually elda við tækifæri - ég er bara ekki frá því... annars er ég mjög dugleg á þvottavélavakt ;)

Fæ kannski sím-tæki í kvöld og svo fékk ég möppu svo ég get farið að stússast í að læra eitthvað af viti ;)



föstudagur, 16. maí 2014

Hræðilegir dagar

Jeremías hvað ferðadagurinn var erfiður, vaknaði kl. 3.20 að íslenskum tíma á fimmtudagsmorgun - og lagði af stað útá völl um 4.30 - en elskan hún mamma var svo væn að skutla mér útá völl. Fyrsta stopp: Kaupmannahöfn - með Wow - en það var bara ekkert að því flugfélagi, eins og það eru margir búnir gagnrýna það í gegnum tíðina. Allavega aftur að ferðalaginu, þar fór ég af vélinni, náði í töskuna mína og gegnum tollinn, tékkaði töskuna inn - alla leið til Antalya og fór í gegnum security í annað skiptið... millilenti svo í Istanbul - hélt að þar myndi ég sleppa við að fara í gegnum security þar sem ég var búin að græja töskuna alla leið til Antalya, - nei þriðja skiptið í gegnum securtity - og týndi næstum því úrinu mínu í öllum hamaganginum til að ná tengifluginu.
Lennti svo í Antalya um 20.30 og út - þar sem það beið mín maður með nafnið mitt ritað á skilti - vá hvað mér leið important, svo birtust tvær sænskar stúlkur þar að auki til að taka á móti mér.. mér var svo skellt uppí bíl sem keyrði með mig í tæpa tvo tíma þar sem Jenni - átti að taka á móti mér (nota bene Jenni er finnsk stúlka). Auðvitað skoluðust fyrirmælin eitthvað til og driverinn skutlanði mér á skrifstofuna en ekki í húsið sem ég bý í - svo á skrifstofunni voru einhverjir tyrkneskir strákar sem vissu ekkert hver ég væri, eða hvar ég ætti að búa - þeir hringdu í guide í Side - sem hélt að ég væri ferðalangur sem vissi ekki á hvaða hóteli ég ætti að vera - sú hringdi svo í Jenni, sem kom á bíl og sótti mig á skrifstofuna, en hún hélt að mér yrði skutlað í íbúðina en ekki á skrifstofuna. Á þessum tímapunkti var klukkan um 21.00 að íslenskum tíma og ég því búin að vera í flugvél, á flugvelli eða í bíl í um 14 og hálfan klukkutíma - og bara dottað af og til inná milli í vélunum, illa nærð í þokkabót - þarna var algjör lágpunktur dagsins - og langaði helst til þess að grenja! En heim til mín komst ég til þess að komast að því að ég bý með 19 ára strákpjakka frá Danmörku sem kann ekki að vaska upp.

Dagurinn í dag var ekki mikið skárri - því ég prinsessan gat nánast ekkert sofið þar sem rúmið mitt var svo hart, og svo var mér svo kalt því dulan sem ég fékk var svo þunn. Svo ég gafst upp á því að reyna að sofa og fór því í gönguferð í leit að morgunmat og hraðbanka í grennd við íbúðina (sem ég er ennþá ekki búin að asnast til að finna út hvað heimilisfangið er á) því hér eru allar götur og hús illa merkt - og maður veit sjaldnast hvar maður er staddur. Var svo sótt af stelpunum kl. 10.50 og fór ég með þeim í hótel heimsóknir.. jeremías hvað dagurinn var langur, við heimsóttum hvert hótelið á fætur öðru, fórum í hádegismat, á skrifstofuna, niðrí bæ á basarinn - þar sem ég krækti mér m.a. í hærðatré - jibbí hvað litlir hlutir geta glatt mann. Fórum svo aftur í hótel-heimsóknir og brunuðum á milli hótela til kl. 19.30 - þá var allur vindur úr mér - núna er klukkan að verða 22 og ég er að bíða eftir heimsendingu á Mc Donalds - ég orkaði hreinlega ekki meira... eftir þetta; fara að sofa með teppið sem nágranni minn lánaði mér ;) Takk Stína

þriðjudagur, 13. maí 2014

Furðulegar ferðir FedEx umslags

Jæja sendingin er komin á áfangastað, en jeremías, var að skoða tracking sendingarinnar á vef FedEx, hann fór frá Hafnarfirði að morgni dags 15. apríl, að kvöldi hins 16. apríl var hann kominn til Kastrup í Danmörku, þá fóru ferðirnar hins vegar að verða grunsamlegar, en kl. 2.19 eftir miðnætti þann 17. apríl var hann kominn til Frakklands. Really? Já, á Roissy Charles De Gaulle - sama dag kl. 6.40 var hann aftur kominn til Kastrup, Danmörku. 22. apríl komst þetta svo til Noregs, finally, via France - mjög sérstakt finnst ykkur ekki?

kv.
Elín

Passinn og flugmiðar komnir í hús

Jæja passinn komst í mínar hendur á þriðjudaginn í síðustu viku, eða 29. apríl. Flugmiðarnir voru svo að koma í hús núna. Þrír leggir, stoppa í Köben og svo í Istanbul, einungis til að skipta um flugvélar, endastöð verður svo Antalya - fyrsta flugið er kl. 7.00 að íslensum tíma, ég lendi svo í Antalya kl. 21.15 - þá tekur við svona eins og hálfs tíma keyrsla að nýju heimili mínu til næstu mánaða: Alanya...

Nokkrir dagar eftir á Íslandi, já eða tveir og hálfur...