föstudagur, 7. ágúst 2015

Fjölskyldan

Stundum líður mér eins og ég sé stödd í kvikmyndinni My big fat greek wedding, en sumir fjölskyldumeðlimirnir falla alveg inní staðalmyndir úr þessari kvikmynd. Sú sem á gistiheimilið vill alltaf vera að gefa mér að borða og setur alltof stóra skammta á disk handa mér, þrátt fyrir að vera speng-grönn sjálf. Bróðir hennar vill alltaf vera að sýna mér eitthvað og fara með mig í excursions, segja mér hvað ég ætti að skoða og að ég eigi nú ekki að synda í sjónum fyrr en tveimur klukkutímum eftir að ég borða. Þar að auki er hann alltaf að útskýra fyrir mér hvernig öll orð og nöfn eru upprunin úr grísku: philadelphia kemur af philis sem þýðir vinur. Orthopedian kemur úr forn grísku þar sem orthos þýðir augu og cardiologist kemur af orðinu cardio - sem þýðir hjarta. Hérna er líka móðir þeirra sem talar stanslausa grísku við mig, hún vill að ég borði stanslaust, rekur mig út ef ég hnerra, vill segja mér hvernig eigi að skúra og tuðar eitthvað ef ég er að skoða símann minn (í frítíma nota bene), verst að ég skil nánast ekkert af því sem hún er alltaf að rausa. Ja nema núna síðast að þá er hún með hjarta vandamál.
Ég var svo óheppin um daginn að fá í magann og ældi öllu um kvöldið sem ég hafði borðað frá og með hádegismatnum, í kjölfarið voru tveggja daga umræður um hvað gæti hafa valdið þessu maga kasti, allt frá kaldri sturtu, hvort ég hefði borðað steiktan kalamari, eða verið með viftuna í gangi og verið sveitt eða blaut og ofkólnað í kjölfarið - eða farið að synda í sjónum. Nema hvað ég hefði ekki gert neitt af þessu.
Hér er svo líka fjölskylduvinur þeirra, væntanlega frændi sem er töluvert nær mér í aldri, á að giska tæplega fertugur - hann er í einhverri vinnu en þess á milli hangir hann í símanum eða á netinu. Hann er nú alveg spreghægilegur út af fyrir sig, því fyrsta kvöldið sem ég kom hingað voru íslenskar stelpur á gisiheimilinu. Þær höfðu verið að fara á milli grísku eyjanna í nokkrar vikur og voru ekki orðnar tvítugar. Frændinn skildi nú ekkert í þeim stöllum, þær væru bara að slappa af og ekkert að djamma. Ég þakkaði bara fyrir að hann hafi ekki farið að tala um að það færi nú orðrómur um íslenskar stelpur og hvernig þær væru - því seinast þegar ég heyrði svoleiðis komment snappaði ég hreinlega.
Ég gekk þó með frændanum og öðrum fjölskylduvini niður á höfn þar sem allt næturlífið er hér í borg og byrjaði þá enn önnur senan. Frændinn hélt því staðfastlega fram að þó að barirnir væru ansi fullir núna myndu þeir fyllast enn meira um miðjan ágúst þar sem 6 af hverjum 10 grikkjum sem fara í sumarfrí í ágúst koma til Chania. Ég og fjölskylduvinurinn mölduðum eitthvað í móinn, þá fór frændinn bara í fýlu og sagði að við myndum seinna biðjast afsökunar á því að hafa efast um hvað hann sagði og það myndi verða ljóst að lokum að hann hefði alltaf rétt fyrir sér. Ekki batnaði lundin þegar ég og fjölskylduvinurinn fórum að gera grín að þessu og hefur frændinn varla yrt á mig síðan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli