Ég held að ég sé smátt og smátt að breytast í bókaorm.. mér fannst alltaf gaman að lesa bækur sem krakki og las töluvert af bókum. Man líka eftir lestrar-keppnum frá því ég var í grunnskóla, þá átti maður að skrifa niður allar bækurnar sem maður las á einhverju ákveðnu tímabili og blaðsíðufjölda hverrar bókar. Rámar nú eitthvað í að maður hafi verið að "svindla" svolítið í þessum keppnum með því að velja bækur með mikið af myndum, eða stórum texta eða miklu línubili. Þeir dagar eru svo sannarlega liðnir, núna geri ég ólíkar kröfur til bókanna sem ég les... þó þær geti verið mjög ólíkar. Er búin að gera smá skurk í lestri heimsbókmennta og klassískum bókmenntum, er ekki dottin í íslenskar bókmenntir og hef ekki lesið bók eftir íslenskan höfund í háa herrans tíð (ja fyrir utan Tobbu Marinós - en er hún í alvörunni rithöfundur?). Hef ég auk þess haldið nokkurveginn bókhald yfir hvaða bækur ég er búin að lesa og hvenær, allar þær bækur sem ég hef verið að lesa hafa nú ekki notið náð fyrir þessum lista, en kannski ég ætti bara að skrá allar þær bækur sem ég les, ekki bara þær "menningarlegu". Bókaáráttan er komin á það hátt stig í dag að ég get ekki beðið eftir að komast heim til mín að halda áfram að lesa. Er auk þess búin að finna ljómandi góðan bókaflokk (ætli ég setji hann ekki inní meðmæli maí-mánaðar, þegar ég er búin að lesa fleiri bækur úr flokknum og hvort hann sé þess virði). Þetta er nánast að breytast í áráttuhegðun, hugsa stanslaust um hvaða bók mig langi til að lesa næst, nóta niður nafn á höfundum og bókum við ólíklegustu sem og líklegustu tilefni, prenta út lista og svo framvegis - reyni svo að færa allt yfir í glósu-bók til minnis. To-do bókalistinn er núna orðinn svo langur að ég er farin að hallast að því að með þessu áframhaldi eigi þetta eftir að endast mér fyrir lífstíð. Ég held ég komist þó seint með tærnar þar sem bloggarinn Magnús Þór er með hælana, en hann las yfir 80 bækur í fyrra!
Það sem bíður mín á náttborðinu er svo m.a. Þjófaborg og Góði dátinn Svejk (ætla nú að hlusta á hana á hljóðbók þar sem pabbi á hana á cd). Þarf virkilega að nýta það bókaform betur - fátt betra en að liggja uppí rúmi og láta annan lesa fyrir sig! Tekur aðeins lengri tíma samt, maður er aðeins lengur að lesa upphátt heldur en í huganum. Í dag er ég að lesa bókina; Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum eftir John Le Carré, textinn er svolítið þunglamalegur, enda bók sem var gefin út fyrst árið 1963, engu að síður gaman að ögra sér svolítið og lesa bækur af annari málvenju en maður er vanur.
Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum - fæst á bókasafni nálægt þér
Minni svo dygga lesendur á það að bókasafnsdagurinn er 17.apríl - endilega skella sér á bókasafnið þann daginn og næla sér í góða bók! Kannski einhverja af þessum 100 bestu skáldsögum allra tíma, valdar af Time tímaritinu? Eða bók eftir Nóbels-verðlaunahafa? Jæja fleiri listar að prenta!
Good reading,
E
Engin ummæli:
Skrifa ummæli