Eitt af því sem ég á meira en nóg af eru ilmvötn...
Hér á árum áður var ég vön að kippa einu ilmvatnsglasi með mér þegar ég labbaði í gegnum fríbban.... sú hefð var fljótlega slegin af eftir að ég lenti í því í fyrsta skipti að ilmvatn sem ég átti eyðilagðist, og það aðeins eftir að ég hafði notað hálft glasið. Eftir það hef ég ekki tekið sénsinn á því að splæsa í rúmlega 7.000 kr ilmvatnsglas sem kemur til með að liggja undir skemdum!
Núna á ég "whopping" 6 ilmvatnsglös, sem eru fleiri heldur en þau sem ég hef klárað um ævina (sem ég held að séu 4 stykki + glasið af Armani She sem eyðilagðist) Auk þess átti ég einhverja white musk olíu frá body shop, en ég held að allar stúlkur í Garðaskóla hafi átt þennan ilm á einhverju tímabili, og var ég sko engin undantekning. Af þeim ilmvötnum sem ég á í dag nota ég eitt í vinnuna, eitt er bara notað á sumrin, svo vel ég úr hinum eftir því hvernig mér líður þann daginn, og í hvernig fötum ég er. Ótrúlegt en satt þá passa sumir ilmir betur við ákveðin outfit heldur en aðrir!
My collection
Það hefur þó ekki breyst að mér finnst ennþá rosalega gaman að ganga í gegnum ilmvatnsdeildina í fríbbanum, skoða glösin og spreyja á mig og pappa-spjöld og velta fyrir mér hvort að ég ætti að kaupa þessa eða hina lyktina þegar ég verð búin að saxa á lagerinn... Það er eins og glösin búi yfir einhverjum töfrum sem hreinlega soga mann til sín - enda er sjaldnast lítið lagt uppúr glösunum! Þetta eru sannkallaðir dýrgripir, oft hangir svo eitthvað glingur úr tappanum eða glansandi málmplata límd framan á glasið; og maður hugsar með sér hvað þetta eigi eftir að líta vel út á glerhillunni undir speglinum á baðinu. Eða ætli undirmeðvitundin sendi þau skilaboð að maður eigi eftir að særa einhvern karlmanninn til sín með einum sírenu-ilminum? Nógu eru stúlkurnar í ilmvatnsauglýsingunum eru aðlaðandi, sjálfsöruggar, gordjöss og sexy. Þetta hlýtur að vera allt falið í glasinu!
Ég hef allavega aldrei keypt mér ilmvatn í ljótu glasi... ætli maður dragi ekki samasem-merki milli ljóts glass og vondrar lyktar, og ekki vill maður lykta illa og draga að sér ljóta menn? Annars er það frásögu-færandi að ég hafði hlakkað mikið til þess að komast í fríbba erlendis, til að finna lykt eftir uppáhalds hönnuðinn minn; Elie Saab (sá ilmur fæst ekki hérlendis síðast er ég vissi) og hafði ég hugsað mér gott til glóðarinnar, þar sem ég hef klárlega ekki efni á því að klæðast fatnaði frá honum, þá hlyti ég nú að geta baðað mig úr ilminum hans.. sú tilhlökkun reyndist tilefnislaus þegar ég komst í heilagleikann á Arlanda-flugvelli;
Lyktin reyndist vera hin versta.. jafnvel bara ámóta slæm og þegar ég tók uppá því að blanda saman uppáhalds-ilmvatninu hennar mömmu og einhverjum öðrum ilmi! Þetta var því miður áður en sprey-tapparnir urðu vinsælir og var því heilt ilmvatnsglas ónýtt, þökk var óvitanum mér (mamma; ég skulda þér ilmvatnsglas). Næsta tilhlökkunarefni; ilmvatn frá Nine West, uppáhalds skó-merkinu mínu. Vonandi verður það ekki jafn mikið flopp og ilmurinn í boði Mr. Saab.
Ég á þó margt eftir ólært í ilmvatns notkun, systa er sannkallaður meistari í þessu og kann að spreyja á sig óhóflegu magni af ilmum og nær að stúta stóru ilmvatnsglasi á örfáum mánuðum! Ekki hef ég þó orðið vör við það að í kringum hana sé þykkt ilmvatnsský.. Suma hluti gengur maður svo hreinlega á lyktina, veit til dæmis alltaf þegar ég er stödd fyrir framan Abercrombie búð og Body shop - trýnið á mér segir mér það hátt og skýrt. Man einnig alltaf eftir því þegar ég var að vinna í súpermarkaði, þá fann ég alltaf þegar "myndarlegi maðurinn" var kominn inní búðina, maður var kannski að ganga einhversstaðar á ganginum og þá kom skýið eða slóðin.. og maður vissi um leið hver var á ferðinni. Hérna held ég einmitt að lyktin hafi spilað stóra rullu í því hvernig maður upplifði hann - hann var með góðan rakspíra og lyktaði vel, snyrtilegur til fara og fékk því tiltilinn "myndarlegi maðurinn". Á mann sveif nánast víma í þessari lykt... allt í glasinu segi ég!
Sjálf er ég þó farin að geta spreyað á mig þyngri og sterkari ilmum heldur en áður.. en það er þó ennþá undantekning að ég þoli sterkar lyktir - ber frekar léttari og ferskari ilmi heldur en þunga.
Hér má svo lesa allt um ilmvötn, base notes, og gagnrýni - mjög interessant síða - þó ég viti ekkert um ilmvötn er forvitnilegt að bera saman ilmina sem maður á, eða langar í og skoða hvað þeir eiga sameiginlegt. Einnig eru til hellingur af blogg-síðum tileinkuðum ilmvötnum, t.d. Perfume Diary.
Jæja núna er ég búin að leggja mitt lóð á vogarskálarnar og búin að skrifa færslu um ilmvötn, sem ég má by the way ekki kaupa á næstunni ;)
Ilmið vel,
Elín
Engin ummæli:
Skrifa ummæli