mánudagur, 27. febrúar 2012

Vangaveltur um hár

Það eru mjög svo skiptar skoðanir í gangi, og hafa verið í svolítinn tíma meðal vina og kunningja er varða hárið á mér, og þá sérstaklega hárlitinn! 
Sumir hafa gerst svo frakkir og hreinlega sagt mér að þeim finnist lýsingin sem ég er með í hárinu núna hreinlega ekki klæða mig, og ekkert að skafa af því heldur! Sumir þegja og reyna að komast að hjá því að segja hvað þeim finnst, á meðan öðrum finnst tilbreytingin skemmtileg, óháð því hvað fari mér betur eða verr. 
Ég held að gamlir vinir og kunningjar séu svo vanir dökka litnum og þeirri staðreynd að ég hef hingað til ekkert verið að breyta um hárlit, að þeir hafa hreinlega ekki vanist þessari breytingu. Á meðan aðrir sem þekkja mig ekki með dökkt hár, hafa ekkert útá litinn að setja.
Það merkilega við þetta allt saman, þykir mér þó að ég hef fengið mun meiri athygli frá hinu kyninu með ljósara hár.. sem stingur algjörlega í stúf við það sem meirihluti vinkvenna minna segir mér; að það fari mér betur að vera með dökkt hár! Hvernig geta kynin verið svona algjörlega ósammála? Eru vinkonur mínar að reyna að gera hárið á mér óaðlaðandi í augum karlmanna, kannski ómeðvitað? Og um leið minnka samkeppnina á markaðnum? Eða eru karlmenn almennt með lélegan smekk á hári?
Það eru þó alveg til undantekningar á þessu, og til eru þeir menn sem hafa spurt mig hver minn raunverulegi hárlitur sé (sem hafa þá ekki séð mig dökkhærða) og sagt að líklega muni dökkari hárlitur fara mér betur heldur en þessi sem ég er með núna. 
Annars er alveg key-atriði hvernig hlutirnir eru sagðir, er farið varlega að efninu, og þetta sagt á góðlátlegan hátt, byrjað á því að segja að ég sé t.d. með fallegt hár áður en það er ráðist í það að segja mér að líklega myndi það klæða mig betur að vera með dekkra hár - eða er því ropað útúr sér í gassagangi, og í óspurðum fréttum á fyllerí að ég sé sætari dökkhærð! 

Þangað til ég sé svo ástæðu til, ætla ég að halda mig við ombre hárlitinn sem ég er með í gangi núna, og hugsa að ég láti tilraunastarfsemina enda í einhverju sólarkysstu looki líku þessu á myndinni hérna fyrir neðan, áður en ég fer aftur í dökkan heillit, mörgum til mikillar gleði.

Rachel Bilson með ombre hár


bestu kveðjur,
Lafði Lokkaprúð

Engin ummæli:

Skrifa ummæli