mánudagur, 5. september 2016

Skóla uppákomur

Jæja, hjólavöðvarnir farnir að skrækja aftur eftir helgar-fríið, en ef þú spyrð mig hvað ég gerði um helgina er fátt um svör - svaf? Ég reyndar lufsaðist niður á Íslandsbryggju, því mér var sagt að þar væri eitthvað húllum hæ frá 11-16... ég fann það nú reyndar ekki fyrst, enda gekk ég bara framhjá bryggjunni sjálfri. En fékk svo óstjórnlega löngun í mat, svo ég fór inní hverfið að leita að pizza stað, en þá var húllum hæ-ið bara inní hverfinu, en ekki við bryggjuna sjálfa. Einskonar hverfis-hátíð, það voru tvær götur sem lágu í T sem voru lokaðar, fólk búið að setja upp sölubása að selja notuð föt, poppkorn og danskir kallar, sem hefðu passað inní band með Rúna Júl að spila - þar fékk ég mér pylsu! Alveg kominn tími á eina slíka hér á bæ.
Á sunnudaginn lá ég bara heima að rembast við að læra - en var meira að sofna út frá lestrinum - hann var ekki meira spennandi en það og ekki mikill hvati til að fara neitt þar sem það var hellidemba úti.
En í dag mætti ég í fyrsta tímann í einum kúrsinum, ég hafði sýnt fádæma fyrirhyggju með þvi að skrá mig í hóp, en maður þurfti að gera það online áður en kúrsinn byrjaði. Ég hafði ákveðið að velja hóp með sem innihéldi að minnsta kosti tvo stráka, en það áttu að vera 5 saman í hóp. Ég hafði svo fengið e-mail frá einum stráknum sem var í hópnum með mér hvort ég hefði valið hópinn, eða hvort mér hefði verið skipað í hann - ég svaraði honum um hæl (í fyrripart síðustu viku) að ég hefði valið hópinn því okkur hefði verið sagt að við ættum að vera 5 í hóp, og þau voru nú þegar orðin 4. Ég fékk aldrei neitt svar við póstinum mínum og hélt bara automatískt að ég væri í þessum hóp sem var nr. 26. Í lok tímans í dag var okkur svo sagt að finna hópana okkar, og hópur 1-10 ættu að hittast í þessum hluta stofunna, hópar 11-20 í þessum hluta og svo framvegis. Upphófst nú leitin að hópnum mínum, og loksins fann ég hóp 26, eftir stutt small-talk þá sögðu þau mér að þau hefðu beðið sérstaklega um að fá að vera bara 4 í hóp, og hvort ég hefði ekki fengið einhver skilaboð frá kennaranum um hvort ég ætti ekki að vera í öðrum hóp - nei, ég hafði ekki fengið neitt slíkt - en ég sagðist bara fara í annan hóp og snéri mér við og fór til kennarans og sagðist vera hóp-laus. Þegar ég sagði henni að hópurinn minn vildi ekki hafa mig í hópnum, þá kannaðist hún við málið og sagðist hafa skipað mér í annan hóp, ég skyldi bara fara online og sjá hvaða hópi ég ætti að vera í. Nema tölvan hafði dottið útaf háskólanetinu einni klukkustund áður, svo ég varð að snúa mér til eins samnemanda míns, sem ég ímynda mér að sé skiptinemi frá Asíu, og fann ég þá að ég átti að vera í hóp nr. 22. Nú voru góð ráð dýr, þar sem helmingurinn af nemendunum var þegar farinn úr kennslustofunni, en hópur af 3 nemendum stóð í hnapp að bíða eftir að geta talað við kennarann... ég spurði þau því í hvaða hóp þau væru - jú mikið rétt 22 - og voru guðs lifandi fegin að ég væri þarna komin, því við mættum vera 4 í hóp en alls ekki 3. Mér til mikillar gleði reyndust vera tveir strákar í hópnum, báðir frá Danmörku og ein stelpa; skiptinemi frá Ástralíu. Jeremías, halelúja og amen.
Þessir tímar eiga þó eftir að verða eitthvað áhugaverðir, því við eigum að hlusta á fyrirlestur online áður en við mætum í tíma (og auðvitað lesa greinar líka). Og svo er bara umræða í tímum, æfinga verkefni, hópverkefni þar sem hvert okkar ber persónulega einstaklega mikla ábyrgð á 2 og hálfri blaðsíðu í verkefninu. Og svo er munnlegt hóp-próf í lokin. Strákarnir eru víst mjög sjóaðir í slíku, stelpan frá Ástralíu hefur aldrei farið í svoleiðis, og guði sé lof þá hef ég prófað það einu sinni. Kannski fékk Friðrik hugmynd að svona prófunum eftir að hafa verið í CBS?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli