mánudagur, 27. febrúar 2012

Vangaveltur um hár

Það eru mjög svo skiptar skoðanir í gangi, og hafa verið í svolítinn tíma meðal vina og kunningja er varða hárið á mér, og þá sérstaklega hárlitinn! 
Sumir hafa gerst svo frakkir og hreinlega sagt mér að þeim finnist lýsingin sem ég er með í hárinu núna hreinlega ekki klæða mig, og ekkert að skafa af því heldur! Sumir þegja og reyna að komast að hjá því að segja hvað þeim finnst, á meðan öðrum finnst tilbreytingin skemmtileg, óháð því hvað fari mér betur eða verr. 
Ég held að gamlir vinir og kunningjar séu svo vanir dökka litnum og þeirri staðreynd að ég hef hingað til ekkert verið að breyta um hárlit, að þeir hafa hreinlega ekki vanist þessari breytingu. Á meðan aðrir sem þekkja mig ekki með dökkt hár, hafa ekkert útá litinn að setja.
Það merkilega við þetta allt saman, þykir mér þó að ég hef fengið mun meiri athygli frá hinu kyninu með ljósara hár.. sem stingur algjörlega í stúf við það sem meirihluti vinkvenna minna segir mér; að það fari mér betur að vera með dökkt hár! Hvernig geta kynin verið svona algjörlega ósammála? Eru vinkonur mínar að reyna að gera hárið á mér óaðlaðandi í augum karlmanna, kannski ómeðvitað? Og um leið minnka samkeppnina á markaðnum? Eða eru karlmenn almennt með lélegan smekk á hári?
Það eru þó alveg til undantekningar á þessu, og til eru þeir menn sem hafa spurt mig hver minn raunverulegi hárlitur sé (sem hafa þá ekki séð mig dökkhærða) og sagt að líklega muni dökkari hárlitur fara mér betur heldur en þessi sem ég er með núna. 
Annars er alveg key-atriði hvernig hlutirnir eru sagðir, er farið varlega að efninu, og þetta sagt á góðlátlegan hátt, byrjað á því að segja að ég sé t.d. með fallegt hár áður en það er ráðist í það að segja mér að líklega myndi það klæða mig betur að vera með dekkra hár - eða er því ropað útúr sér í gassagangi, og í óspurðum fréttum á fyllerí að ég sé sætari dökkhærð! 

Þangað til ég sé svo ástæðu til, ætla ég að halda mig við ombre hárlitinn sem ég er með í gangi núna, og hugsa að ég láti tilraunastarfsemina enda í einhverju sólarkysstu looki líku þessu á myndinni hérna fyrir neðan, áður en ég fer aftur í dökkan heillit, mörgum til mikillar gleði.

Rachel Bilson með ombre hár


bestu kveðjur,
Lafði Lokkaprúð

föstudagur, 24. febrúar 2012

So far, so good..

Febrúarlok nálgast óðfluga, og mér virðist vaxa ás-megin.. þar sem ég hef getað silgt í gegnum þennan mánuð án fata-freistinga :) Er reyndar búin að vera mjög lítið í búðum þennan mánuðinn.. en so far, so good eins og maðurinn sagði! 
Verð svo að deila þessari mynd með ykkur, þessi jakki frá Burberry er skuggalega líkur mínum jakka;

Mynd fengin að láni frá The Look 4 Less

Verð samt að viðurkenna að mig langar ennþá í gráar niðurþröngar gallabuxur og nude hælaskó. 

Ég föndraði þessa mynd úr tveimur frá; your next jeans

Annars er ég farin að fá nýtt verðskyn á alla hluti, það er allt mælt í mánuðum núna... var til dæmis að skoða hljómtæki á netinu sem kostuðu um 40.000 kr, eða tvo mánuði ;)

Kv.
Elín on a rehab

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Matur og drykkur í Reykjavík

Ég er alvarlega farin að efast um getu mína til að spotta góða veitingastaði... alltaf þegar ég hef verið beðin um meðmæli af erlendum kunningjum mínum um veitingastaði í Reykjavík- þá klikkar alltaf eitthvað! Jeminn, eins og við eigum mikið af góðum veitingastöðum í þessari borg! Merkilegt alveg hreint... einu sinni mælti ég með Indian Mango - þá biðu vinir mínir í rúman klukkutíma eftir matnum sínum, þegar hann var ekki ennþá kominn - þá gengu þeir út og fóru á annan veitingastað. Núna síðast "mælti ég með" Harry's á Rauðarárstíg, þar var ég nú reyndar líka með í för, þjónustan var reyndar mjög góð, maturinn svona lala en allir fengu í magann eftir heimsóknina! Ég hafði þó borðað á hvorugum staðnum áður, bara heyrt góða hluti af Indian Mango og svo var Harry's á tímabili nr. 1 yfir vinsæla matsölustaði á Íslandi á Tripadvisor. Héðan í frá ætla ég bara að mæla með matsölustöðum sem ég hef borðað á sjálf áður, og það nýlega... 
Einn af þeim matsölustöðum sem ég ætla ekki að mæla með er Sjávargrillið, þar beið ég og Jórunn heillengi eftir borði (sökum anna á staðnum) - svo þegar við fengum borð og pöntuðum matinn okkar, þá held ég að þeir hafi gleymt pöntuninni okkar, því við biðum örugglega í klukkutíma eftir síðbúna hádegismatnum okkar, sem varð nánast að kvöldmat! Að sjálfsögðu trónir Sjávargrillið í fyrsta sæti á vinsældarlista Reykvískra matsölustaða á Tripadvisor þegar þetta er skrifað. Austur Indíafélagið er svo í fjórða sæti, þar hef ég snætt þrisvar á lífsleiðinni, og alltaf orðið fyrir vonbrigðum.. kannski vegna þess að allir lofa þann stað svo mikið og hann hefur ekki staðist væntingar. Held ég taki ekki mark á neinum einasta hlut á tripadvisor héðan í frá!
Mér til málsbóta, þá hefur enginn gestur hótelsins kvartað undan veitingastaða tipsum frá mér... einn var meira að segja að tékka út í morgun - ég spurði hann einmitt um veitingastaðinn sem ég mælti með - hann var svona líka ljómandi ánægður með meðmælin. Svo ætli ég fari ekki bara næst á Ask.. 

kv.
Elín matvanda

miðvikudagur, 22. febrúar 2012

What is she wearing?

Og það var verið að gagnrýna svana-kjólinn hennar Bjarkar hérna um árið, ég er nú bara ekki frá því að Selena Gomez fari nú ekki fjarri þeim blessaða kjól í þessari múdderingu;

Selena Gomez á evrópsku MTV verðlaunahátíðinni 2011

Hún minnir einna helst á skautadansara, þetta dress hefði passað fullkomlega í eina slíka keppni. Ja eða að einhver hafi ráðist á gamlan brúðarkjól og klippt megnið af pilsinu í burtu.

Kveðjur af vaktinni,
Elín

mánudagur, 20. febrúar 2012

2nd hint for Eurovision

Jæja, alveg kominn tími á annað hint fyrir Eurovision-partýið í vor!
Finnst ég nú bara næstum því vera í fyrra fallinu þar sem Svíarnir eru ekki búnir að velja lag sem fer í keppnina fyrir þá ágætu þjóð.
Kæru vinir, hérna kemur annað hint í myndbandaformi;

Preslava - Kato za final

Annars má eiginlega segja að allar færslur (að einni undanskilinni) frá síðasta vísbendingabloggi, sé í þemanu góða. 

Kv.
Elín

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Um sjónvörp

Ég hélt uppá afmælið mitt síðastliðna helgi og bauð vel völdu fólki heim í eurovision-gláp og pizza át.. 
Gestirnir voru þó sammála um það að ég yrði að fá mér nýtt sjónvarp og það fyrir aðalkeppnina í vor! Hence er ég búin að vera að skoða sjónvörp á heimasíðum raftækjabúða... guð minn góður - þvílíkur frumskógur að vaða í gegnum, 100 mismunandi merki, allt frá þekktum merkjum til rusl-merkja sem þú hefur aldrei heyrt talað um. Einnig er aragrúi hugtaka eins og lcd, plasma, hd, hdmi-tengi, upplausn, birtustig, háskerpa, hljóðkerfi, svartími, og það fyrir utan hugtök sem ég skil, eins og; þyngd, scart-tengi og mál.
Þetta verður einhver höfuðverkur.. og hann dýr! Kannski ég verði að hætta að fara út að borða á veitingastöðum og taka take-away mat til að hafa efni á sjónvarpi!


Kveðjur út tv-landi,

Elín

mánudagur, 13. febrúar 2012

Meðmæli mánaðarins; Febrúar

Fékk þá snilldar hugmynd að brydda uppá nýjum blogg-flokki hérna.. það er meðmæli mánaðarins, þessi flokkur mun eflaust koma til með að endurspegla það sem ég er að stússast í hverju sinni, en þið getið trúað því að hérna mun bara fara inn efni sem hefur hefur virkilega náð til mín. Ekki byrjar árið illa skal ég segja ykkur, frábær meðmæli hérna á ferðinni!

Bókin; Kýr Stalíns eftir Sofi Oksanen, er að lesa hana núna og á erfitt með að leggja hana frá mér
Bíómyndin; The Artist, af franskri kvikmyndahátíð. Svart/hvít og þögul mynd, hreint út sagt frábær mynd

Aðalleikarar myndarinnar; The Artist

Njótið vel,
Elín

föstudagur, 10. febrúar 2012

The ultimate black Audrey Hepburn dress

Þetta tel ég vera hinn klassíska svarta kjól í anda Audrey Hepburn. Væri alveg til í einn svona í fataskápinn minn.

Þessi kjóll er frá Hobbs og fæst hér

Vildi að það væri kjóll í uniforminu hjá okkur í vinnunni... væri alveg til í kjól í svona stíl.. en þegar ég hugsa þetta betur - þá ættu ermarnar helst að vera aðeins síðari eða ermalaus, þessi ermalengd er frekar un-flattering skv. glápi mínu á breska makeover-þætti, lætur handleggina á manni líta út fyrir að vera breiðari heldur en þeir raunverulega eru. Ekki viljum við það! 

Stay stylish,
Elín

fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Dagur 4 - sögn 4

Þó að það sé mikið að gera hjá mér í vinnunni, social-lífinu og ekki að fara í búðir - þá hef ég nú líka tíma fyrir ýmislegt annað! 
Ég held að ég verði samt að vitna í Jóhönnu vinkonu - þegar hún sagði að það sé bara hársbreidd frá því að hafa alltof lítið að gera - og hafa alltof mikið að gera, svo mikið að þú getir ekki einu sinni sest niður á kaffihúsi og fengið þér kaffibolla í rólegheitum! Ég held barasta að ég fari að skipa mér á bekk með Jóhönnu, nema í mínu tilfelli myndi kaffibollanum verða skipt út fyrir kakóbolla, það er að segja kakóbolla sem ég hef ekki tíma til að fá mér.
Markmið þar-seinustu fríviku; að setjast niður og fletta glans-tímaritum var heldur ekki gert í síðustu viku! Ekki er þó allt svo illt að ekki boði eitthvað gott, ég náði jú að hitta fullt af frábæru fólki og eyða með þeim kvöldstund eða svo.. kláraði að lesa: "Dætur Kína" (mæli ekki með þeirri bók), hitti bókaklúbbsfélagana og fór á franska kvikmyndahátíð. Þar að auki er ég í spænsku tvisvar sinnum í viku, og náði ég að skila af mér fyrsta verkefninu í dag. Þar sem þetta er hrað-námskeið, þá er próf 28. febrúar, og í ljósi þess að páfa-gauks lærdómur hefur aldrei reynst mér sérstaklega auðveldur ákvað ég að læra eina óreglulega spænska sögn í atburðaþátíð á dag - samtals eru þær 19 talsins sem eru til prófs, ég er komin á sögn fjögur; estar.. svo þetta rétt merst fyrir prófið!

Stal myndinni frá Billsblog777

Eigið góða daga gott fólk,
Elín

miðvikudagur, 8. febrúar 2012

La música

Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar ég sé nýtt lag á youtube, ja, nýtt og ekki nýtt. Ég skal umorða þetta, þegar ég heyri lag á youtube, og geri mér grein fyrir því að ég hafi heyrt þetta sama lag áður, annað hvort með öðrum tónlistarmanni eða hreinlega á öðru tungumáli.
Þetta lag með honum Nino er eitt slíkt:

Nino - Theos

Ég held að ég hafi heyrt þetta á grísku áður, með öðrum texta og öðrum flytjanda, þori samt ekki að fara með það hvort það hafi verið á öðru tungumáli - heyri oft líka lög á búlgörsku sem er til grísk útgáfa af.. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram að ég er líka alltaf í hvítum gyðju kjól, á hælaskóm og með sólgleraugu þegar ég geng í gegnum akur. Að sjálfsögðu!
Ég er bara ekki frá því að ég hafi fengið hugmynd að eurovision-þema vorsins í þessu myndbandi, er með fjórar mismunandi útfærslur í huga... en ég verð að sjálfsögðu að hafa takmarkanir fataskápsins míns í huga...

Stay posted,
Elín

þriðjudagur, 7. febrúar 2012

Janúar lokið, aðeins 91,7% to go!

Það er kominn 7. febrúar 2012 og ég er búin að standa við gefin loforð um að kaupa enga flík 2012! Í tilefni þess stofnaði ég nýjan banka-reikning og lagði inn 20.000 kr inná reikninginn sem verður geymdur til innkaupa á einhverju fyrir svefnherbergið ;)
Þarf samt endilega að setja inn bestu og verstu kaup ársins 2011, er búin að hugsa um þetta síðan í byrjun janúar - en ekki komið mér í það ennþá. Veit samt alveg nákvæmlega um hvaða hluti er að ræða! 
Stalst samt til þess að skoða vor- og sumarlínuna frá Zara, þar sem svart, hvítt, pastel og blómamynstur ráða ríkjum. Einnig má greina smá Versace einkenni hjá þeim.


Fleiri flíkur úr línunni má svo sjá á www.zara.com

Ágætt að vita til þess að ég á bláan og hvítan víðan blómatopp, og hvítar sumarskyrtur, hvítar hörbuxur og beis-sumarbuxur.. bíð spennt eftir því að "endurvinna" gömul sumarföt núna í sumar. Annars er ég búin að komast að því að ég hefði ekki getað farið í fata-bindindi á betri tíma, ég meina ég er í uniformi hálft árið.. 

Sumarlegar kveðjur,
Elín

föstudagur, 3. febrúar 2012

Stefnumótun

Ég held að ég hafi án djóks sofið í svona 2 klukkutíma í nótt...  og þar sem ég nýbúin að klára bókina sem var á náttborðinu mínu hafði ég ekkert betra en að fara framúr, fá mér morgunmat, fletta gömlum morgunblöðum og skoða myndir á netinu. Ákvað ég því að setja saman hugmyndablað fyrir svefnherbergið mitt:


Þetta er hugmyndablað 1 - er búin að velta ljósum örugglega fyrir mér í yfir eitt ár - þar sem ljósið sem ég er með núna er rauverulega brotið! Einnig búin að hugsa mikið um gafla og rúmstæði síðasta mánuð, bólstraðir rúmgaflar eru hvað mest áberandi á Íslandi í dag - og allir þeir sem mig þekkja vita að ég þjáist örlítið af spes veikinni og vill alls ekki vera með það sama og ALLIR aðrir. 
Satt best að segja kom þessi niðurstaða mér þónokkuð á óvart, þar sem þetta er svo rómantískt og jafnvel pínu sveitó - á amerískum mælikvarða! Ég virðist greinilega vera eitthvað í rómantískum hugleiðingum þessa dagana. 
Ég hef samt ekki hugmynd hvaða stefnu ég eigi að taka með loftljósið... var fyrir löngu búin að hugsa mér ljós eins og í vinstra horninu, nema með svörtum skermi.. en með hvítt rúm þá virkar það eiginlega ekki lengur og get ómögulega gert upp við mig hvaða ljós af þessum fjórum mér finnst fallegast - hvað finnst þér?

Kv.
Elín Designer

miðvikudagur, 1. febrúar 2012

Sleepless in Reykjavik

Jesús það er ekki gott að vinna á næturvöktum ef maður vill sofa á nóttunni í fríviku! Svaf sex klukkutíma eftir vakt á mánudaginn, á þriðjudaginn svaf ég svo um 14 klst nánast í beinni lotu og vaknaði ekki fyrr en 16:50 þegar dyrabjallan hringdi! Ég náði ekki manneskjunni sem var að hringja.. til að þakka viðkomandi fyrir að vekja mig - annars hefði ég sofið af mér spænsku-tímann þann daginn! Þegar þetta er skrifað er klukkan 06:10 á miðvikudegi - ekkert búin að sofa.. svo ég er bara búin að vera að hlusta á lög með Medinu á youtube.. og einhverra hluta poppaði upp myndband frá Maybabytumbler - þar sem 15 ára kanadísk unglings-stelpa sýnir herbergið sitt! Og ekkert smá herbergi, fataskáparýmið og fötin sem krakkinn á! OMG og hún á bókað meira meikup heldur en ég og ég er 28 ára! Ég átti heldur ekki hælaskó þegar ég var 15 ára..
En ég áttaði mig ekki strax á því að ég var búin að rekast á eitthvað költ-fyrirbæri.. það er hellingur af svona myndböndum á netinu, stelpur að gera svona room-tour, flestar þeirra virðast vera með eitthvað video-blog á youtube.. makeup, hairstyling og ég veit ekki hvað! Ég ætti kannski að gera svona before and after video af svefnherberginu mínu!!
Ps. á að heyrast hljóð frá spennu-breytinum fyrir tölvuna?

Kv.
Elín, really not hearing things