föstudagur, 31. júlí 2015

Heillandi Rhodos

 Lonely planet sagði að annað hvort myndi mér líka við Rhodos eða ég myndi elska Rhodos, og það er engin spurning ég ELSKA gamla bæinn í Rhodes Town.
Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðunina tók sænskumælandi Grikki á móti mér - það fannst mér alveg sprenghlægilegt. Það tók mig svo aðeins um 10 mínútur að labba frá höfninni að hótelinu. Þeir eru líka með svona info box niðri á höfn þar sem er hægt að fá kort á nokkrum tungumálum - enda mikið af fólki sem fer yfir í dagsferð. Ég gisti á hotel Spot inni á gamla bænum sem er lítið boutique hótel í gyðinga-hluts gamla bæjarins. Ég var komin inná hótelið um kl 11 og fékk morgunmat/lunch og herbergið var strax tilbúið, svo ég gat hennt farangrinum. Þar inn og var rokin út í sight seeing um klukkan 12. Gamli bærinn er allur hellulagður með litlim steinum, svo góður skóbúnaður er möst! Litlar götur liggja þvers og kruss, og sögu er að finna á hverju horni, það var einhver minningarathöfn við minnismerkið sem tileinkað er þeim sem dóu og lifðu helförina af. Fullt af litlum búðum að selja skó, skartgripi, leðurvörur, krem, ólífuolíu og eftirlíkingar af fatnaði og töskum. Tyrkirnir mega eiga það að fake töskurnar þeirra og fötin eru flottari en þau á Grikklandi - en Grikkirnir hins vegar hafa fallegri skartgripi, skó og leðurtöskur sem eru gerðar hérna og ekki eftirlíking af neinu.
Ég skoðaði hellstu staðina sem voru möst see, riddaragötuna, verslunargötuna í tyrkneska hlutanum en alls staðar inn á milli eru rústir af gömlum veggjum og hægt að ganga litlar götur og líða eins og maður sé einn í borginni. En ég sleppti öllum söfnum í þetta skiptið. Um kvöldið fór ég svo að borða á Meltemi sem er úti við sjó í nýja bænum.
Daginn eftir var hótelstýran Pat svo almenileg að bjóðast til að keyra mig til Anthony Quinn bau, en honum var víst gefinn þessi litli flói ásamt lítilli strönd frá Grikklandi fyrir að kynna landið - nema hann hefur aldrei komið þangað. Það var svo búið að mæla með því að ég færi til Lindos, sem er víst frægasti fornleifastaðurinn á eyjunni, en ég varð svo ástfangin af gamla bænum daginn áður að mig langaði bara til að röllta þar um. Sem ég og gerði, fann svo gönguleið svo maður gat gengið milli virkisveggjanna - í nánast algjörri þögn, og borgin iðandi að lífu beggja vegna utan þeirra auk þess sem ég kíkti aðeins inní nýja bæinn. Um kvöldið bauð Pat mér og þýsku pari af hótelinu að koma með sér í lítið þorp á bestu tavernuna á svæðinu, jeremías það var svo góður matur, og maður borgaði bara 10 evrur og fleiri og fleiri diskar komu á borðið. 
Morguninn eftir var svo síðasti dagurinn, átti flug frá flugvellinum um klukkan hálf fjögur. Svo ég byrjaði daginn snemma og fór út að labba um bæinn, og langaði til að sjá gamla bæinn að ofan - ég hafði séð inngang rétt hjá riddaragötunni þar sem maður gæti gengi ofan á virkisveggjunum - en þeir reyndust svo vera lokaðir um helgar. Svo ég fór að vafra um gríska hluta gamla bæjarins, þar rambaði ég svo alveg óvart fram á skilti sem stóð best panorama view yfir gamla bæinn og ég inn - WOW, pantaði frappé og hafði staðinn útaf fyrir mig í um klukkutíma áður en ég röllti aftur heim á hótel og tók rútu út á flugvöll.

Marmaris framhald

Gleymdi alveg að segja ykkur frá uppákomunum í Marmaris. Þessir búðar gaurar geta verið svo annoying ef maður er ekki í stuði fyrir þá, þegar ég var að strunsa heim eftir að hafa skilað bílnum (já þetta var klárlega struns) þá reyndi einn að fiska mig inná veitingastað, hvort það mætti bjóða mér eitthvað að drekka - ég get svarið það ég veit ekki hvaðan tónninn og svarið mitt kom, en ég svaraði með mesta fyrirlitningartón sem ég hef nokkurntíma notað er ég svaraði að það mætti hann ekki-þakka þér kærlega fyrir. Nei kauði gafst ekki upp, og sagðist vita að ég kæmi frá Hollandi. Jeremías, hvað ég hugsaði restina af leiðinni heim; ef einhver einn í viðbót segir að ég sé frá hollandi þá öskra ég! Blessunarlega reyndu ekki fleiri að eiga mannleg samskipti við mig það kvöldið.
Síðasta kvöldið í Marmaris var ansi skrautlegt skal ég segja ykkur, lennti á heilmiklu spjalli við einn verslunareigenda á basarnum - úff innsight í þann heim var ekki fallegt skal ég segja ykkur, en hann sagði að þar sem svo mikið af þorps-strákum séu búnir að opna verslanir í Marmaris (og þetta á eflaust við annars staðar líka) þá hefur virðing fyrir viðskiptavininum alveg farið í svaðið. Þessi sem ég lennti á spjalli við sagðist vera frá Ankara, og þar af leiðandi ekki "þorpari" en ég tek því nú með fyrirvara því ekki talaði hann fallega um hugsanlega viðskiptavini - sagði fólk ekkert vita af hverju það kæmi á bazarinn, vafraði bara um stefnulaust að skoða og ekki að skoða. Haha þessu lýsing gæti alveg átt við um mig.
Alls staðar eru svo merkingar í gluggum eins og "genuine fake" eða "original fake" haha þeir hafa ekki tekið upp á þessu ennþá í Alanya, nú eða hætt því... Ég fjárfesti ekki í neinu í Marmaris, enda hafði ég gert öll kaupin í Alanya eða Antalya- það var svo reynt að selja mér fake ilmvatn, en slíkar búðir eru mun meira áberandi í Marmaris heldur en Alanya. Kannski er þetta eitthvað sem bretarnir kaupa (en þeir eru sjaldgæf sjón í Alanya). Verslunarmaðurinn spyr mig endurtekið: hvað er þín lykt - hvað er þín lykt. Ég stóð á gati enda alltaf að skipta, svo ég svaraði Victorias secret (sem ég er jú að nota núna). Hvað haldið þið að hann hafi sagt? Nú: "can I smell you" auðvitað - haha ég gat ekki að því gert en að fara að skellihlæja og láta mig hverfa.  Hafði engan sérstakan áhuga á því að láta lykta af mér. En hvað ég get hlegið að þessu ennþá!
Seinna sama kvöld gat ég ekki á mér setið þegar einn spyr hvaðan ég sé, og ég svaraði ekki- þá las hann aftan á stuttbuxurnar mínar: "california" haha þá snéri ég mér við og klappaði og sagði nei sko hver kann að lesa. Haha held að hann hafi ekki alveg náð þessu því hann sagði að venjulega væri hann með gleraugu eins og ég, en ekki núna - sagði mér í stuttu máli frá buisnissinum sínum sem er að selja túristum skoðunarferðir. Svo vildi hann endilega bjóða mér í einn drykk á einhverjum bar - ég afþakkaði pent, enda aldrei hægt að treysta neinum í þessu landi að viðkomandi sé bara vinur manns - í 90% tilfella er alltaf eitthver annað mission. Því miður, því eflaust gætu margir orðið góðir vinir manns.
Segi ykkur næst frá Rhodos

þriðjudagur, 28. júlí 2015

Umferðarljósin í Marmaris


Ekki skil ég af hverju það eru umferðaljós í Marmaris þar sem þau sýna aldrei rautt eða grænt ljós heldur alltaf gult blikkandi ljós. Einkennilegur andskoti! Ég gisti svo tvær nætur í Marmaris eftir að ég kom úr "bíltúrnum". Ég varð ekkert sérstaklega heilluð af borginni að kvöldlagi enda bærinn smekkfullur af túristum og varla hægt að ganga um göturnar. En gamli markaðurinn eða basarinn er skemmtilegur ap ganga um og fann ég prýðis veitingastað sem bauð uppá heimilislegan mat, maður valdi bara það sem maður vildi úr borðinu og það var hitað í örbylgjunni - ljómandi gott - ef einhver vill prófa heitir staðurinn Meryemana.
Hrifnust var ég þó af hotel Oasis, starfsfólkið þar var alveg yndislegt við mig, reddaði mér auka nótt þrátt fyrir að þeir væru fullbókaðir samkvæmt vefsíðunni þeirra - þeir sögðu að ég mætti vera eins lengi og ég vildi ;) Mér tókst svo að gleyma smá dóti heima hjá Anniku í Alanya svo stelpurnar sendu það með hraðpósti til mín, og lét ég móttökuna fá pening til að borga fyrir sendinguna. Þeir hringdu svo í mig úr lobbýinu og sögðu að sendingin væri komin, svo ég skaust niður til að ná í dótið. Nema hvað peningurinn sem ég hafði látið þá fá lá ofan á pakkanum. Ég skildi ekki upp né niður í neinu, hvort þeir hefðu ekki borgað eða hvað. Þá sagði maðurinn í lobbýinu að hann hefði talað sendilinn til og að ég væri svo nice stelpa að ég þyrfti ekkert að borga? What.. Nema þá að hann hafi borgað sjálfur, en það kæmi þá bara út sem 22 líru afsláttur af einni nóttinni. 
Að morgni þess 23 júlí tók ég svo leigubíl frá hótelinu og út að höfninni sem bátarnir fara til Rhodos. Tékkaði inn og fór í gegnum security og talaði við custums vegna tax free... Hahaha það var ótrúlega fyndið! Ég spyr hvort ég sé á réttum stað fyrir tax refund, jú jú og ég rétti þeim kvittunina, búina að passa svo vel uppá allt saman og tilbúin með innkaupin í handfarangrinum. Þeir ræða eitthvað sín á milli og kalla á einhvern annan, ég hélt að það væri þá einhver ákveðinn starfsmaður sem sæi um þetta og hann væri fjarverandi í augnablikinu. Um 10 mínútum síðar birtist einhver, á stutt orðaskipti við þessa tvo sem voru þegar á staðnum, haha og hann var einungis kallaður inn til að spyrja mig hvort ég vildi virkilega fá endurgreiðsluna því hún væri einungis um fjórar lírur, jú jú sagði ég og birtist þá fjórði maðurinn, þeir drógu út möppu, fylltu út einhverjar upplýsingar, svo byrjaði einhver sena, ég spurði hvort það væri "problem" - já kvittunin ætti að vera í fjórriti en það væri bara í þríriti, og hvar fjórða blaðsíðan væri. Ég sagðist hafa fengið þetta svona, þeir yrðu bara að tala við þá í Antalya.. Þetta reyndist svo ekki vera neitt vandamál og tók aðeins um fimm mínútur að græja þetta og setja í þar til gerðann póstkassa. Magnað alveg hreint, ef þeir hefðu bara byrjað á þessu strax. Siglingin yfir til Rhodos tók um klukkutíma, þar tók svo sænsku-mælandi tollari á móti mér. Stoppaði í info deski, fékk kort og labbaði á hótelið minn sem var aðeins í um 10 mínútna göngu-fjarlægð frá hörfninni. Þar gisti ég í gamla bænum á Spot hotel og reyndist herbergið mitt tilbúið er ég kom á hótelið um klukkan 11, þar beið mín svo morgunmatur og var ég komin út um klukkutíma síðar að röllta um bæinn.

mánudagur, 27. júlí 2015

On the road


Síðast skildi ég við ykkur á rútustöðinni í Marmaris. Ég steinrotaðist svona líka í báðum rútunum að ég gleymdi meira að segja að athuga hvort það væri wifi hjá Pamukkale rútufyrirtækinu. Ég vaknaði nú samt nokkrum sinnum, konan við hliðina á mér var að fá sér einhverja hressingu og svo framvegis. Það þurfti svo að vekja mig þegar við komum til Marmaris, þaðan var lítil þjónustu skutla sem skutlaði mér á hótelið - auðvitað löngu fyrir tékk inn tímann, sem var kl 12 á hádegi. Starfsfólkið var þó ekkert nema yndislegheitin, bauð mér uppá morgunmat og fékk ég svo úthlutuðu herbergi kl 9 - og þvílík sæla, þarna voru um 100 sjónvarpsstöðvar og þar af 50 ensku mælandi - og það á ódýrasta hótelinu í bænum. Og ég sem hef gist á Hilton Garden Inn og þar var bara ein fréttastöð á ensku, restin var á rússnesku og pólsku ef ég man rétt, og mesta lagi 30 stöðvar! Þegar mér tókst að slíta mig frá imbanum lagði ég mig í rúma tvo tíma og töllti svo inní bæinn í sight seeing, litlar krúttlegar götur til að vafra um og kastali og safn til að skoða. Ég keyrði það allt í gegn og sótti svo bílaleigubílinn um kvöldið. Það var nú ekkert hlaupið að því að fá bílastæði get ég sagt ykkur, en það hafðist á endanum. 
Morguninn eftir lagði ég svo í hann, keyrði til Selcuk þar sem ég var búin að bóka nótt á hóteli til að byrja í Ephesus daginn eftir. Á leiðinni þangað stoppaði ég í Euromos, Herakleia og Priene. Euromos er lítill staður með hofi, einstaklega fallegt og aðeins örfáar hræður á svæðinu og flestir þeirra fornleifafræðingar að hræra í rústunum á svæðinu. Í Herakleia eru rock tombs, en búið er að grafa út grafir í heilu bergklappirnar og svo steinhellur settar yfir. Priene er svo bær með hofi, það sama var uppi á teningnum - ég hafði staðinn nánast útaf fyrir mig. Dagurinn var algjörlega fullkominn, kom svo til Selcuk á drulluskítugt hótelherbergi með gati á hurðinni, sígarettu ösku á gólfinu, krumpuðum rúmfötum og hlandlykt á klósettinu. En ódýrt var það og morgunmatur fylgdi með. Daginn eftir ætlaði ég svo að byrja í Ephesus, en vaknaði fyrir allar aldir, svo ég ákvað að fara í smá early sight seeing, sem endaði á því að í morgunbirtunni sá ég ekki bungu í veginum sem skrapaði undirvagninn á bílnum. Með reynslu af slíkum málum hringdi ég í lögregluna - sem skellti á mig þar sem þeir töluðu ekki ensku.. Tyrneskir þorpsbúar komu mér til bjargar og hringdu í her-lögregluna, sem birtist svo tveimur klukkutímum seinna með dráttarbíl - sem var nú alls ekki nauðsynlegur. Ég náði svo loksins sambandi við bílaleiguna, og þá kom í ljós að þeir vildu ekki einu sinni skýrslu. Svo bílaleigan útskýrði það fyrir jandarma að ég þyrfti ekki skýrslu, en þurfti á endanum að gera skýrslu um að ég þyrfti ekki skýrslu. Dráttarbíllinn reyndi svo að fara fram á greiðsu, því var staðfastlega neitað af minni hálfu enda var engin þörf fyrir hann. Eftir þetta ævintýri fór ég svo til Ephesus, en þetta seinkaði öllu svo ég var ekki komin þangað fyrr en um ellefu, eða á allra versta tíma, þegar það er sem heitast og mest af túristum inni á svæðinu. Borgin er rosalega stór, og mikið endurgerð til að auka glæsileikann, en engu að síður varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum, enda búið að hypa staðinn svo upp að ég var að búast við of miklu. Eftir að hafa ráfað um svæðið í nokkra klukkutíma fór ég inn til Selcuk að þefa uppi hádegismat og fann líka svona góðan matsölustað, þökk sé lonely planet. Eftir atburði dagsins nennti ég ómögulega að fara á safnið og hélt því af stað heim. Næsta vesen: þeir á bílaleigunni gleymdu að segja mér hvernig átti að nota high wayinn og þar sem ég nennti ekki að tala við þá aftur þá fór ég hægari leiðina heim, og rétt náði í tíma til að skila bílaleigubílnum. Þá var ég guðs lifandi fegin að komast aftur á Hotel Oasis og losna við bílinn enda náði ég ekkert meiru sight seeing þann daginn. Til að kóróna allt komst ég svo að því eftir að ég skilaði bílnum að það var ókeypis að nota hraðbrautina þar sem það var bayram helgi. 

miðvikudagur, 22. júlí 2015

Stalker á ströndinni

Næst síðasti dagurinn minn í Alanya var 17 júlí, og vildi það þannig til að fyrsti dagurinn í bayram lennti á þeim degi. Bayram er sem sagt múslimsk hátíð sem haldin er í lok ramadan, föstumánaðar múslima. Þá gera tyrkirnir vel við sig í mat og drykk og borða mikið nammi. Þessi dagur var alveg stórfurðulegur, dagarnir á Tyrklandi geta jú verið furðulegir, en þessi var stórfurðilegur. Annika og Stína þurftu að mæta í pickup kl 8.00 þat sem þær voru að taka þátt í liðsdegi fyrirtækisins, og þar sem ég var vöknuð á sama tíma ákvað ég að drífa mig á ströndina og nýta daginn vel. Að vanda var stefnan tekin á strönd 22, þar sem staffið þar er vant að láta okkur fá bekki frítt, og erum við vanar að kaupa okkur bara eitthvað að borða hjá þeim. Nema ég hugsaði með mér að labba í flæðarmálinu á leiðinni þangað - enda á það að vera ágætis fótsnyrting þar sem sandurinn skrúbbar burtu siggið. Ég settist svo í sandinn einhversstaðar á leiðinni til að njóta útsýnisins og sötra vatnið mitt - enda skagar hitinn upp í 40 gráður og á maður þá að drekka um 4 lítra af vatni yfir daginn. Það liðu ekki tvær mínútur þar til einhver furðufugl var búinn að setjast við hliðina á mér og reyna að tala við mig á tyrk-ensku, ég skildi nú voðalega lítið nema hann vildi vita hvað ég héti og hvort hann mætti fá sopa af vatninu mínu - ég hélt nú ekki, svo lagði hann sig á hliðina eins og hann ætlaði að fara að sofa. Þá var ég ekki lengi að láta mig hverfa, labbaði nokkurn spöl og settist annars staðar - þá mætir hann aftur og sest aftur við hliðina á mér. Jedúdda mía er hann ekki að skilja að ég nenni honum ekki, stend aftur upp og segist vilja vera í friði en þori ekki að labba meira á ströndinni og fer því uppá gangstétt að fela mig bakvið pálmatré meðan ég horfi á hann labba lengra út á ströndinni. Því ekki vil ég að hann sjái að ég fari á strönd 22 og verði að pestera mig þar allan daginn. Losnaði ég nú sem betur fer við það, enda hefðu strákarnir á 22 örugglega rekið hann í burtu - nógu vel hugsuðu þeir um mig þarna, þeir voru allan daginn að stilla sólhlífina fyrir mig svo ég gæti verið í skugga - enda alltof heitt til að vera allan daginn í sólinni. 
Á leiðinni heim stoppa ég svo í sjoppunni hennar Anniku og þar er einhver nýr að afgreiða sem ég hafði ekki séð áður - hann spyr hvaðan ég sé - ég segi honum það - og hann svarar; you are nice... Hahaha hvar endar vitleysan?
Um kvöldið stoppar svo einhver á hjóli og reynir að tala við mig á tyrknesku, eitthvað varðandi bayram. Seinasta kvöldið mitt í Alanya ákvað ég svo að láta laga augabrúnirnar á Cuts by Celal, sömu stofu og í fyrra, þar er einhver nýr gaur sem spyr hvort hann megi gera það, jú jú - og hann fer eitthvað að spjalla við mig, hvort ég sé í fríi og hvað lengi - þessu var ekki auðsvarað og segist ég vera að fara til Marmaris og ætli að taka bílaleigubíl - þá spyr hann einfaldlega hvort hann megi koma með! Haha það eru engin mörk hérna. Svo byrjaði sölumennskan, hvort ég vildi ekki láta lita rótina, fá klippingu og það allra besta; hvort ég væri hrifin af húðflúrum! Í alvörunni ef ég hefði gengið þarna inn til að láta snyrta augabrúnirnar og gengið út blond, með nýja klippingu og húðflúr? Hahaha... Ég hélt að þetta væri grín, en stelpurnar sögðu mér að sömu eigendur ættu einar 2-3 tattoo stofur. Svo þetta var ekkert grín!
Síðasta daginn skellti ég mér svo í paragliding, sem maður hleypur framan af kletti í fallhlíf og svífur niður á strönd. Okkur til samlætis var svo fálki, flugmaðurinn vildu meina að þetta hafi verið örn - en ég er ekki jafn viss um það.
Um daginn héngum við stelpurnar svo bara við laugina og pöntuðum McDonalds. Um kvöldið tók ég svo rútu til Antalya og þaðan næturrútu til Marmaris, þar sem næsti hluti ferðalagsins mun eiga sér stað.

þriðjudagur, 14. júlí 2015

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt

Eins og hefur kannski komið fram áður er að það er soldið skrýtin tilfinning að vera komin hingað aftur, sú staðreynd að maður átti heima hérna í fyrra en er einungis í heimsókn núna. Maður er þó ekki alveg gleymdur hjá íbúm bæjarins og það er nú alltaf smá huggun í því :) Við Annika fórum til dæmis á ströndina í gær og þar var sami strandar-gaurinn og í fyrra haha, og það fyrsta sem hann sagði þegar hann sá mig - er hann var að vísa nokkrum skandinövum á bekki - var að þessi stelpa væri ekki fyrir hann - haha enda var hann eitthvað að ýja að því í fyrra hvort að mig vantaði nú ekki kærasta - hann gæti nú alveg gengt því hlutverki - það var afþakkað. Við Annika sellihlógum að sjálfsögðu að þessu. 
Þó að maður þekki landið og bæinn ágætlega er þó alltaf hægt að læra eitthvað nýtt. Ég er alls ekki langt frá gömu íbúðinni minni frá því í fyrra, en er búin að labba töluvert meira um hverfið núna og tók ég eftir því að alls staðar á grindverkunum utanum nærliggjandi hús eru plastpokar bundnir við  girðingarnar, stelpurnar gátu auðveldlega svarað af hverju þetta stafaði - jú þetta er sett út handa þeim sem hafa lítið milli handanna og geta mögulega ekki keypt sér brauð. Það getur líka verið forvitnilegt að sjá hvernig fólk notar svalirnar sínar. Ég veit til þess að fólk sofi á svölunum þegar heitast er og tók ég eftir því í Antalya að fólk stilli sjónvarpinu sínu upp í svaladyrunum og sitji svo úti á svölum að horfa á imbann. Í dag sá ég svo litla kommóðu fulla af lauk úti á svölum á jarðhæð (hér eru nefnilega líka svalir á jarðhæðinni, en ekki pallur). Fannst það ansi merkilegt og fer nú örugglega hér eftir að góna inná svalir hjá blá-ókunnugu fólki. 

föstudagur, 10. júlí 2015

Bananalandið Tyrkland

Tyrkirnir eru stundum dansandi á þunnri línu milli þess að vera fyndnir og svo í hina áttina einstaklega dónalegir. Það fer allt eftir dagsforminu hvort maður nenni að standa í small talk á nokkurra metra fresti, spurningar eins og hvernig hefurðu það, hvaðan ertu og hvar er Ísland. Sumir virðast þó vera meira með á nótunum heldur en aðrir, og einn fleygði meira að segja fram föðurnafni - það var svo ekki fyrr en að maðurinn fór að tala um fótbolta að ég gerði mér grein fyrir því að hann var að tala um einhvern íslenskann leikmann og núna var ég komin út fyrir minn þekkingar-brunn. Ef maður er svo ekki í stuði til að tala við þá fara þeir að lesa það sem stendur á fötunum þínum - mæli ég því eindregið ekki með því að vera í stuttbuxum merktum "California" á rassinum - það byrjar alltaf á því að þeir segja hallo hallo where are you from - er ég svara svo ekki og geng framhjá, þá segja þeir undantekningarlaust: California. Vá þú kannt að lesa - æðislegt. Önnur skipti staldra ég þó við og á stutt spjall við tyrkina - einstaka sinnum endar það í einhverju stórfenglega hlægilegu sem við Fin-Ice mafían getum hlegið endalaust að. Sem dæmi má nefna götu-sölumann í Side sem ég átti stutt spjall við, eftir að hafa sagst vera frá Íslandi fór hann að tala um Irish coffee og hvað ég væri lík fyrrverandi kærustunni hans sem hafði verið bresk - tvemur mínútum seinna af venjulegu spjalli segir hann að hann sé mest hrifinn af brjóstunum á mér þau séu eins og bananar - haha - hann gerði sér svo grein fyrir því að þetta hafi komið eitthvað vitlaust út og reynir að krafsa í bakkann og segir greip - þá segi ég honum að hann sé að hegða ser mjög dónalega og geng í burtu - hann kallar á eftir mér af hverju ég sé að fara og hvort ég ætli að koma aftur - nei takmörkin eru engin hérna. En það sem við stelpurnar erum búnar að hlæja að þessu!

fimmtudagur, 9. júlí 2015

Komin heim

Ég er komin heim á mitt gamla heimili, í strand- og túristabæinn Alanya. Hér dvel ég hjá finnskri vinkonu minni henni Anniku og er eini munurinn að í ár býr allt liðið ekki í Cleo - á móti fiskmarkaðnum heldur á þremur mismunandi stöðum, Annika er í ár á Galaxy - sem er blanda af holiday homes fyrir skandinava og tyrki auk nokkurra íbúða sem fararstjórar búa. 
Ferðin frá Side til Alanya var fremur áfallalaus, nema hvað ég þurfti að bíða í tvo klukkutíma eftir rútu sem færi til Alanya - það var nú reyndar soldið dubius hvernig þeir rukkuðu mig fyrir ferðina í rútuna - en venjulega fær maður miða, en núna nei - og svo sá ég manninn hjá rútufyrirtæki A sem ég borgaði 15 lírur fyrir ferðina gefa starfsmönnum rútufyrirtækis B sem ég ferðaðist svo með peninginn og þeir stungu sitthvorum seðlinum í sinn vasann hvor. Ég reyndi að malda í móinn og fá miða-en nei og ég um borð í rútuna, var ég því soldið nervous þegar bílfreyrinn kom að tala við mig á tyrknesku - ég spurði hann hvort hann talaði ensku, svarið var english yok - þá yppti ég bara öxlum og sagði turkish yok - needless to say fóru allir í kringum mig að hlæja - og í endann skildi ég að hann var að spyrja mig hvert ég var að fara - jú Alanya. Hér er sól eins og endra nær - en ég er búin að vera að bagslast með kvef og hósta sem stafaði af of mikilli loftkælingu - en er öll að koma til. 
Hér hefur ótrúlega margt breyst á einu ári. Nýjar byggingar rísa upp eins og gorkúlur, einn verslunarkjarninn fyrir utan bæinn hefur fengið andlitslyftingu og nýtt nafn : Mega moll og damlatas vatnsrennibrautagarðurinn heitir núna Alanya water park og státar nútímalegri inngangi en áður. Aðrir hlutir haldast tiltölulega óbreyttir, eins og sítrónusölumaðurinn á horninu hjá Mavi niðri á aðalgötu er þar ennþá, nema núna er appelsínu season.

Hér er ég búin að dvelja í góðu yfirlæti og félagsskap með finnsku skvísunum mínum, þeim Anniku og Stínu - auk þess sem ég er búin að kynnast nýju íslensku fararstjórunum og krökkunum úr barnaklúbbnum. Frábært fólk allt saman - hér var svo alveg hellað white night party á Palm beach - haha nema Palm beach er líka flutt - flutti frá jaðri bæjarins og alveg upp að Kale klettinum, og er því merkt sem strönd no 0 Kleópötrustrandar megin. Þessi gleði dró svo að aðra guida allt frá Antalya og Side, svo það var hálfgert reunion. Eftir að tónleikunum lauk fóru allir á Crazy horse þar sem einhver úr barnaklúbbnum hrissti glimmeri yfir allt liðið - og er maður núna á degi þrjú ennþá með glimmer fast á handleggjunum!

Ég tók svo í fyrsta skipti strætó upp í Kale - klettinn sem skagar út í sjó hér á bæ og gekk niður eftir litlum göngustíg sem liggur í gegnum skóg og íbúðahverfi á klettinum - hafði gönhustíginn alveg útaf fyrir mig - en eitthvað hefði getað verið betra þá hefði culture húsið mátt vera opið. Þegar ég kom niður af klettinum kíkti ég svo í Rauða turninn sem er einskonar trademark bæjarins, þaðan kíkti ég svo í shipping yard og gerði tilraun til að heimsækja menningarhús sem er við hliðina á rauða turninum, en þar kom ég líka að lokuðum dyrum þótt það stæði skýrum stöfum að þar væri opið frá 9-17 alla daga. En ég komst hins vegar inní pöddusafnið sem er í sama húsnæði, þar sem tveir bakkar með fiðrildum, kakkalökkum og öðrum kvikindum var til sýnis.