laugardagur, 10. desember 2016

Krakow recap

Ég skellti mér til Póllands, Krakow nánar tiltekið þann 11-14 Nóvember að heimsækja Dawid. Það var hin mesta snilld, þó að það hafi verið kaldara þar heldur en í Kaupmannahöfn.
Ég flaug yfir á föstudagskvöldi og byrjaði Dawid að fara með mig á mjólkurbar - sem er eitthvað furðulegt nafn yfir veitingastað sem býður uppá klassískan pólskan mömmu-mat. Þar tróð ég svoleiðis í mig súpu og tveimur öðrum réttum til að bragða á pólska eldhúsinu.
Á laugardaginn byrjaði að snjóa og við fórum í smá skoðunarferð niðrí miðbæ, kíktum á fata-flóamarkað, þar sem var hægt að kaupa jakka frá íslenska merkinu Nikita! Það kom mér á óvart, við kíktum svo í kirkjuna á aðal-torginu og á markaðinn. Löbbuðum svo heim en Dawid og kærastinn hans Kristó búa í gyðingahverfinu. Ég kíkti svo á Galicia gyðingasafnið sem var í næsta nágrenni og um kvöldið kíktum við út á bari og borðuðum einskonar opið bagette í kvöldmat (sem er algengur fast food þar í borg). Var svo mikið hlegið að mér þegar hópurinn sagði mér að við ætluðum að drekka vodka og ég spurði í hverju - í Póllandi er vodka tekið í staupum! Og ekki slæm staup, vodka með kirsuberjabragði og fleiri brögðum. Einn vinur Dawids reyndist svo vera frá svíþjóð - og í lok kvöldsins vorum við farin að syngja snella snella með Carlolina af Ugglas. Ekki bjóst ég við því á bar í Póllandi
Daginn eftir byrjuðum við daginn á morgunmat og svo fór ég, Dawid, vinkona Dawids og hundarnir þeirra að kastalanum sem stendur yfir borginni. Við rót kastalans er svo eldspúandi dreka-stytta. Við Dawid rölltum svo meðfram ánni, og yfir í gamla gyðinga ghettoið - þar sem er eitt torg sem er fullt af stólum (sem eru einskonar styttur). Ég fór svo í Shindlers faktoríuna - þar sem ég hélt að væri safn tileinkað Shindler sögunni - það var þó minnst tengt því, en aðeins tvö herbergi voru tileinkuð Shindler. Restin af safninu var ítarleg frásögn og innstilation af atburðarrásinni í WW2 - og brottflutningi gyðinga út úr Krakow. Safnið var áhugavert - en alltof stórt of yfirgripsmikið, ég hreinlega orkaði ekki að lesa textana sem voru við myndirnar og sýningargripina - og þegar ég kom út slátraði ég hálfum lítra af vatni á núll einni og tók tramið heim til strákanna, þar sem við pöntuðum bara pizzu í dinner og nenntum ekki út í snjókomuna.
Á mánudagsmorguninn byrjaði ég á því að fara í synagóguna sem er rétt hjá strákunum og skoðaði grafreitinn þar - sem er víst einn elsti grafreitur gyðinga í Evrópu. Svo hentist ég útá pósthús að kaupa frímerki - en þau eru bara seld á pósthúsum. Svo í tram út á lestarstöð og svo útá flugvöll og heim til Köben.
Snilldarferð, alveg hægt að skella sér til Póllands, ódýr og góður matur og mæli með Galicia safninu og örugglega hægt að gera góð kaup í mollinu sem er við aðal-lestarstöðina, en ég hafði bara rétt tíma til að reka nefið þar inn á leiðinni útá völl - næst gæti ég svo farið til Auswich.

laugardagur, 22. október 2016

The bikelife

Eins og ég var vön að fara í göngutúra á kvöldin í Alanya, þá gætu hjólatúrar á kvöldin í Köben verið málið.
Ef það er logn það er að segja, en á daginn eru allir að flýta sér eitthvað, og oft á tíðum mikil hjóla-traffík, fólk að taka framúr manni, og maður fær samviskubit ef maður heldur ekki sama tempói og þeir sem eru í kringum mann. Svo maður fylgir venjulega bara straumnum, og er lítið að horfa í kringum sig nema á rauðu ljósi, sem er ef til vill ekki skemmtilegasta leiðin til að upplifa borg. En í þau fáu skipti sem ég hef verið að fara eitthvað á kvöldin, og ef það er logn þá er æðislegt að vera hjólandi, þá getur maður bara lullað göturnar og glápt innum búðarglugga og horft í kringum sig í rólegheitunum, því það eru langtum færri á ferðinni. Það er kannski ekki besti tíminn samt að gera það á föstudags- eða laugardagskvöldi, því hérna hjólar fólk drukkið, og mjög drukkið. Þegar ég fór með Mariam í meat-district, sem er hipstera bar-hverfið, þá var fólk dettandi hægri og vinstri á hjólunum sínum á götuna, og það áður en það lagði af stað! 

þriðjudagur, 11. október 2016

Fleiri hjólastílar

Uppgvötaði um daginn enn annann hjólastílinn - það er vöggu-stíllinn, það er þegar hjólreiðarmaðurinn vaggar óvenju mikið til hliðanna um leið og viðkomandi hjólar! Þyrfti helst að fá einhvern til að laumu-hjóla á eftir mér til að greina minn hjólastíl, en vöggustíllinn er held ég með þeim hallærislegri að eigin mati.

Komst svo að því í gær, að eftir allt saman er ekki stúdenta-afsláttur á Chili mili - mér til mikilla vonbriðgða, komst líka að því í gær að maður þyrfti að eiga gúmmístígvél í rigningu, því þrátt fyrir að ég hélt að skórnir myndu ekki blotna svo mikið við það að hjóla í skólann þar sem þeir snerta ekki einu sinni götuna - nei gleymdu því - þeir rennblotnuðu - og endaði ég með þá inni á klósetti í skólanum undir handþurrkunni.

Komst líka að því að Harry Potter gleraugu gætu reynst hið mesta þarfa þing hér í Köben í rigningunni, því þegar þú ert búinn að grúfa hausinn ofan í bringu, þá sérðu ekki neitt fyrir ofan umgjörðina - en með HP gleraugum er sjónsviðið líklegra hærra og hægt að sjá lengra fram fyrir sig þegar maður hjólar - en ég komst rétt hjá því að hjóla á konu sem labbaði á móti umferðinni með hjólið sitt - Á HJÓLAGÖTUNNI. Í hitt skiptið nauðhemlaði ég er hjólreiðamaðurinn fyrir framan mig nauðhemlaði þegar umferðarljósið varð gult, og hoppaði ég hreinlega af hjólinu, og afturdekkið fór á flug.

Sem sagt mjög óánægjuleg reynsla af því að hjóla í rigningu! 

sunnudagur, 9. október 2016

Hjólandi og multitasking

Það er líka hægt að borða samloku þegar maður er að hjóla, nú eða reykja og hjóla! Sá nú meira af fólki reykja hjólandi í september heldur en núna, þar sem það er töluvert meiri vindur núna heldur en í september, þegar það var nánast sumar-veður.
Um daginn sá ég svo konu hjóla og borða samloku, það var alveg kostulegt - hún hjólaði að sjálfsögðu hægt, og pínu skrykkjótt, og tóku allir frammúr henni. Ég er ekki komin svona langt í hjólamenningunni að geta hjólað með annari og borðað með hinni, en í dag tók ég samt mína fyrstu mynd á símann minn meðan ég var að hjóla - en það var lítil umferð, og þetta var afraksturinn:

Mynd tekin á ferð

En myndefnið var skemmtilegt, eldri karlmaður í rykfrakka á hjóli.

Er búin að komast að því að það ískrar óþægilega mikið í hjólinu ef ég nota handbremsuna í rigningu, og hjól fjúka um koll hérna í borginni þegar vindurinn er sterkur.

Á to do listanum mínum er að heimsækja nokkur söfn og fara á world press photo sýninguna sem er til sýnis hérna í Köben. Poppa við í Dagmar bíó-húsinu og fá prógramm fyrir CPHPIX, sem er reyndar bara á dönsku - Danirnir ekki alveg með þetta eins og þeir sem stjórna Riff heima. 
Komst líka að því að hollustu veitingastaðurinn sem ég uppgvötaði fyrir nokkrum vikum: Chilimili er með 20% námsmanna afslátt.. eins gott að ég er bara búin að borða þar tvisvar sinnum.
Einnig ætlaði ég að setja mér markmið að borða einu sinni í viku á nýjum kebab eða shawarma stað... í dag er komin vika síðan ég borðaði síðast á slíkum stað, ekki viss um að ég nái að standa við það markmið.. en kannski aðra hverja viku?
Annars verð ég nú örugglega mest á hvolfi að læra heima næstu vikurnar, síðasta vika fyrir vetrarfrí byrjar á morgun, og í vetrarfríinu byrja próf í formi heimaverkefna. Og núna eru einskonar æfinga-próf.

föstudagur, 30. september 2016

Um hjólastíl

Hér er sko margur hjólastíllinn, hér eru buxur girtar ofan í sokka, buxur brettar upp eða teygja sett utan um buxurnar, fólk hjólar útskeift, innskeift, með hnén saman, hnén sundur, stilla hnakkinn hátt, eða lágt, hjólar hægt, hratt, á racer hjólum, borgar hjólum, Kristianíu-hjólum, með börn ofan í Kristianíu hjólinu, eða með barn fyrir aftan sig í barnastól, nú eða fyrir framan sig, með hjálm, ekki með hjálm, talar í símann með þráðlausu, skoðar skilaboð á símanum eða hjólar haldandi á stórri ferðatösku við hliðina á hjólinu. Verst er að hjóla langar leiðir milli klukkan fjögur og fimm, þar sem allir virðast vera að sækja börnin sín í leikskólann á Kristianíu hjólunum sínum, og á mjóum hjóla-stíg þá getur það myndað fjölmargar umferðarteppur - og þessi Kristianíu hjól - þau koma í fjölmörgum útgáfum - ein þeirra er hér fyrir neðan. En það furðulegasta sem ég hef séð er hjólreiðamaður sem er skorðaður inní gulan aflangan hólk - svo þetta minnti helst á stóran hjólandi banana.

Kristiania bike - mynd fengin að láni héðan

Hjólandi banani - mynd fengin að láni héðan

Annars komst ég að því í dag að mesta hættan í umferðinni stafar ekki af bílum, heldur af öðrum hjólreiðamönnum sem svína á mann og hægja á sama tíma á... rétt náði að koma í veg fyrir stórslys í morgun þegar gamall kall svínaði svona á mig, og köttaði mig off, þegar han svínaði fram fyrir mig, hægði á, á sama tíma og var hálfur fyrir framan mig mjög nálægt gangstéttinni og hinn helmingurinn af hjólinu köttaði mig af svo ég gat ekki beygt í hina áttina - svo ég snarhemlaði með handbremsunni - þarna hefði sko komið sér vel ef það væri bílflauta á hólinu, en bjallan er sömu megin og handbremsan og ekki hægt að gera bæði á sama tíma!! Shit hvað ég var brjáluð útí þennan hjóla-dólg!

fimmtudagur, 29. september 2016

Leiðrétting

Vindurinn í gær var rok, borderline stormur - Danirnir gáfu honum víst nafn og allt saman, svo slæmur var hann - og hann er ennþá á ferðinni í dag. Var blaut af svita þegar ég kom í skólann, ágætt að ég byrjaði daginn á því að hand-þvo tvenna boli og hengja upp til þerris, því með þessu áframhaldi er bara hægt að nota hverja flík einu sinni.
Annars hitti ég íslending í skólanum í dag - það var snilld, og það skemmtilegasta er að hún er líka í skiptinámi hérna frá HÍ, og á sömu línu heima og ég! Frekar fyndið að hitta hana ekki fyrr en eftir að vera búin að vera hérna í mánuð - sjúklega fyndið þegar við föttuðum að við erum í einu fagi saman - og búnar að mæta í tíma í mánuð... haha en rakst á hana þegar ég hitti krakkana sem ég er í hópverkefni með áður en þau eru með henni í öðrum tíma.
Sem er ágætt, því allir samnemendur mínir virðast flokkast í hópa eftir þjóðernum, svíarnir hanga saman, færeyjingarnir saman og þjóðverjarnir saman. Annars heyrði ég stórgott komment frá einum samnemanda mínum frá Ríó sem var að tala við sessunaut sinn, sagði Ríó-búinn að það væri sérstakt fyrirbæri hjá dönum að allir kysu að sitja ekki hlið við hlið, það væri alltaf passlegt bil á milli fólks, að minnsta kosti eitt sæti og helst ættu nemendur ekki að tala saman. Samkvæmt þeirri kenningu er ég algjör Dani. Annars eru kennslustofurnar hérna mjög ólíkar þeim heima, margar eru með sætum sem eru eins og bíósæti, og margar stofur eru með sætum fyrir nemendur á 2 hæðum, annað á venjulegu plani, og önnur borð og stólar í bar-hæð, sem er ágætis pæling, því þá geta væntanlega fleiri séð vel á töfluna. Svo eru auðvitað hinir týpísku bíó-salir líka eins og heima. 

miðvikudagur, 28. september 2016

Mánuði seinna...

..vaknaði ég í morgun og hugsaði með mér að þetta hjóla-líf væri kannski ekki svo slæmt. Dró frá glugganum og uppgvötaði að það verður orðið kolniðamyrkur kl. 7 á morgnana eftir 1-2 vikur, dró þá aðeins úr bjartsýninni. Þegar ég kom út á Amager Boulevard, þá tók annar downer við; mótvindur. Maður þurfti nánast ekki að bremsa á rauðu ljósi þar sem vindurinn stoppaði mann í sporunum. Ekkert á við íslenskt rok en það var töluvert erfiðara að hjóla í skólann í dag, svo ég segi ekki meira, var alveg á síðasta snúningi þegar ég kom í skólann. Langebro var samt erfiðust, hún er nú venjulega smá krefjandi - en í morgun jeremías, venjulega er svo skemmtilegra að koma niður brýrnar þar sem maður getur bara látið sig renna, en mótvindurinn í dag gerði manni það erfitt fyrir.
Vona bara að áttin breytist ekki áður en ég fer heim - en það var alveg á mörkunum að rigna í morgun - sé fram á að þurfa að dröslast með tvær töskur í skólann, aðra undir tölvuna og bækur, hina undir nýtt sett af fötum, vindfötum og regngalla... spennandi tímar framundan!