sunnudagur, 28. júní 2015

Leiðin til Tyrklands

Eftir nokkurra mánaða hugleiðingar um hvert leið mín skyldi liggja þetta sumarið varð gríska eyjan Krít fyrir valinu, ég lét þó ekki þar við sitja og ákvað að ég skyldi heimsækja eitthvað annað land eða lönd fyrst. Það fór því svo að Tyrkland varð fyrir valinu, ástæðurnar eru margar en fyrst ber að nefna að mig langaði einstaklega mikið að heimsækja vini mína sem ég var að vinna með í fyrra og eru ennþá að vinna á Tyrklandi.
Ég henntist því af stað föstudaginn síðastliðinn og flaug ég með German wings frá Íslandi í gegnum Stuttgart Þýskalandi og þaðan með Condor til Antalya - sem er einmitt sami flugvöllur og ferðaskrifstofan notaði í fyrra og í ár.

Ferðin gekk framan af frekar áfallalaust fyrir sig, gat hennt farangrinum í geymslu á flugvellinum í Stuttgart og tekið lest inní bæ, þar var sól og blíða, röllti ég því um garð við Slossplatz, keypti mér mat í gogginn á matarmarkaði og virti fyrir mér mannlífið. Lagðist svo á bekk og dottaði (soldið dösuð eftir næturflug) labbaði svo verslunargötuna útá Hauptbahnhof - nema þar urðu á vegi mínum þessir líka fínu Birkenstock inniskór, á litlar 6700 ISK þegar þeir kosta 11-12 þús heima. Þeir voru mátaðir og keyptir á núll einni, enda hafa þeir verið all lengi á innkaupalistanum.

Útá völl, fá tax free afgreitt, ná í töskuna úr geymslu, innrita mig í flugið og fara í gegnum security. Þegar ég finn loks hliðið sem vélin fer frá er þar vegabréfaeftirlit, alls ekkert óvanalegt - nema gaurinn þar spyr mig hvort ég hafi komið með vél frá Íslandi í morgun, jú mikið rétt - þá spyr hann mig af hverju ég sé að millilenda, hvort það séu engin flug beint frá Reykjavík til Antalya. Ég er ekki þekkt fyrir að standa á gati svo ég svara því að ekki finnist nein ódýr flug allavega. Fluginu sjálfu seinkaði um klukkutíma og var annars alveg ágætt, fengum vöfflu og val um kaffi, te eða vatn í boði hússins sem er alls ekki slæmt nú til dags.

Kemur þá sagan að Tyrklandi - fer í gegnum öryggishliðið þar, fékk Giris slimpil eins og alltaf hér á bæ, nema eftir að ég er komin þar í gegn kemur gaurinn hlaupandi á eftir mér kallandi bjagaða útgáfu af nafninu mínu, ég þarf að fara til baka, stend þar á hliðarlínunni (við hliðina á breskum ferðamönnum). Er ég beðin um að skrifa nafn föður míns-þeir tala sín á milli á þeirra tungu - ég fer að hallast að því að þeir skilji ekki íslenska nafna-kerfið eða verið sé að rugla mér saman við aðra manneskju eða þeir halda að passinn sé falsaður. Bretunum er hleypt í gegn í skyndi, gaurinn kemur útúr glerbúrinu sínu og segir polis offis. Við þangað - allir í röðinni gónandi á gelluna sem lét loka röðinni og ég geng eins og dæmdur glæpamaður inná ofis de Polis. Þar er ég spurð hvort ég tali Tyrknesku, nei það geri ég ekki, passinn skoðaður og skannaður - pikkað á tölvu, lengi stoppað við stimpilinn frá Grænlandi og einn lögregluþjónninn kemur með matinn handa vaktinni. Loks er ég spurð hvar residence permit skirteinið sé - ég segi að það sé útrunnið en sem betur fer var ég með það í för. Hann tekur það, pikkar meira á tölvu, segir að það sé cancelled og það verði eftir, ég megi fara - allt þetta fór fram fyrir opnum tjöldum - veit ekki hvað fólkið í röðunum hafi haldið þar sem það gat séð mig sitja inná ofis. Ég reyndi bara að halda ró minni og spurði einskis - enda hefði það ekki þýtt mikið þar sem þeir hefðu ekki skilið mig. 

Var ég því afar glöð að sjá vin minn Elmo í Antalya þar sem ég hef dvalið sl. daga og heyra að hann lennti í svipaðri uppákomu er hann kom til landsins, var honum sagt að hann væri á einhverjum lista yfir eftirsótta á Tyrklandi - og snérist þetta í grófum dráttum um að einhver pappírsvinna var ekki unnin við frágang á útrunnu dvalarleyfunum okkar frá því í fyrra. Það er alltaf gott að vera með góðu fólki á listanum - það lætur manni líða betur.

Kv.
Eftirlýst af lögreglunni

Engin ummæli:

Skrifa ummæli