miðvikudagur, 9. apríl 2014

Veggir til að klifra

Sælir kæru vinir,

og velkomin á ferðabloggið mitt to be:)

Núna er rétt rúmlega mánuður til stefnu þar til ég held af landi brott á vit nýrra ævintýra, að þessu sinni á Tyrklandi. Trúi því ekki að það séu sex ár síðan ég bjó í shoe-city: Thessaloniki. Það verður skrýtið að flytja á annan stað.. önnur borg í öðru landi verður gerð að heimaborg í nokkra mánuði þetta sumarið. Þessi dvöl verður þó töluvert ólík, þar sem ég verð að vinna í mun minni borg en Thessaloniki - og engar kirkjur til að skoða á hverju götuhorni, spurning hvort ég fari þá í mosku skoðun í staðinn? Þarf klárlega að læra að vefja slæðu um hausinn á mér svo það sé smart - note to self: pakka einum klút niður í tösku.

Það er samt óvenju flókið að fara að vinna á erlendri grundu, þarf að sækja um atvinnu-vísa á Tyrklandi og með þeirri umsókn þurfa að fylgja hin ýmsu gögn. Þar ber fyrst að nefna vegabréfið mitt, og þar sem það var að renna út, þá sótti ég um nýtt á hrað-meðferð - svo þarf að fylgja með búsetuvottorð, og það tekur 5-6 daga að fá það - og ég komst ekki að því að þess þyrfti með fyrr en í dag. Þar að auki þarf að fylgja eitthvað vottorð sem ég sækji í gegnum heimasíðu - nema sú síða virkar ekki og ég get ekki prentað út vottorðið. Svo eru gögn á leið til mín í pósti frá Skandinavíu sem þurfa að fylgja með. Bíð spennt eftir póstinum þessa dagana.

Ég upplifi þetta svolítið þannig að ég sé að ganga á hvern vegginn á fætur öðrum,  einn veggurinn er í tengslum við bankareikninginn minn sem launin mín koma til með að verða greidd inn á, þeir vilja fá upplýsingar um IBAN og Swift númer frá bankanum - þar að auki vilja þeir BIC og "bank account number". Bankinn minn sagði mér að Swift væri það sama og BIC, IBAN væri það sama og "bank account number" - nema greiðandinn heldur því fram að það sé ekki það sama.. það eru víst fleiri Íslendingar í þessari dilemmu, var nú nokkuð létt að heyra það ef satt skal segja. Leið svolítið eins og það væri verið að hafa mig að fífli, og veit ennþá ekkert hvað snýr upp né niður í þeim málum.

Hver veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér?

kv.
Elín

Engin ummæli:

Skrifa ummæli